Fyrir rúmum mánuði síðan fékk ég þennan hjartnæma póst hér að neðan og fékk leyfi frá höfundinum Bjarka Má að deila honum með ykkur því í honum felst lærdómur um hvernig er hægt að takast á við mótlæti og erfiðleika í lífinu og ná markmiðum sínum. Í kjölfarið hitti ég Bjarka Má og hjálpaði honum og mun halda því áfram svo lengi sem hann óskar eftir því. Bjarki Már er staðráðinn í því að læra það sem hann hefur ástríðu fyrir í lífinu sem er eitt af því sem ég hef ráðlagt fólki hér á siggiraggi.is. Pósturinn hans Bjarka var póstur frá hjartanu og er hugvekja til okkar allra um lífið og hvernig við tökumst á við það.
Njótið vel, Siggi Raggi.
Ég heiti Bjarki Már Ólafsson og er 19 ára strákur af Seltjarnarnesinu. Ég starfaði á Laugardalsvellinum í allt sumar í “vallargenginu”, ef þú manst eftir mér.
Ég hef lengi fylgst með þér og litið upp til þín, setið fyrirlestra hjá þér og lesið bloggið þitt reglulega. Mig langaði til þess að segja þér mína sögu og leita ráða hjá þér.
Ég hef spilað fótbolta síðan ég man eftir mér og hefur fótboltinn alltaf verið það sem skiptir mig mestu máli. 5 ára setti ég mér markmið (ótrúlegt en satt) að spila með Liverpool þegar ég yrði 18 ára og segja má að ég hafi alltaf frá því ég man eftir mér sett mér einhver markmið og unnið markvisst að þeim – þá einna helst þegar kemur að fótboltanum.
Ég var mjög ungur þegar ég áttaði mig á því að ég þyrfti að leggja rosalega hart að mér til þess að ná markmiðum mínum í lífinu, og ég lagði heldur betur mikið á mig til þess að ná þeim. Ég var kannski aldrei einn af þessum “bestu” í yngri flokkunum, en það gaf mér ennþá meiri hvatningu til að verða sá besti. Það var fyrst í 3. flokki þegar ég var til að mynda í fyrsta sinn í A-liði í flokknum mínum, en það var eitthvað sem ég hafði alltaf stefnt að.
Ég tók miklum framförum í 3. flokki og tók út mikinn þroska, en ég hafði verið mikið eftir á í þroska alla tíð, og var meðal annars gerður að fyrirliða liðsins og fór að spila upp fyrir mig í 2. flokkinn.
Ég hafði náð settum markmiðum, en þá setti ég mér ný, og þau voru kannski í takt við þau markmið sem ég hafði sett mér þegar ég var 5 ára gamall – ég ætlaði mér að komast að í atvinnumannaliði erlendis og ég ætlaði að komast í yngri landslið Íslands. Ég skráði niður aðferðir til þess að ná þessum markmiðum og setti tímasetningu hvenær ég skildi hafa náð þeim. Beitti svokallaðri 7-þrepa markmiðasetningu. Fyrir lok árs 2011 ætlaði ég að hafa náð báðum þessum markmiðum.
Í september 2011 var mér boðið út til Reading og æfði með þeim í 10 daga og gekk mér frábærlega. Fékk mikið hrós frá þeim þarna úti og ætluðu þeir að skoða möguleikann á að bjóða mér aftur út eftir áramótin.
Í október 2011 var ég boðaður á u19 ára landsliðæfingu í fyrsta skipti og gekk mér vel og hélt mér í hópnum þennan veturinn.
Í janúar 2012 meiddist ég illa og var meiddur meira og minna í heilt ár. Ég datt út úr landsliðinu og Reading ferðin var sett á hold. En ég setti mér þá bara ný markmið og hef ég náð þeim núna eftir erfið meiðsli.
(Bendi þér hér á viðtal sem var tekið við mig í kjölfarið:
Ég vann mig inní meistaraflokkshóp Gróttu og gekk vel undanfarið.
Í sumar fór ég fyrir 2. flokki Gróttu og spilaði mína fyrstu meistarafokksleiki.
Ég hafði sett mér ný markmið núna í vetur – að verða efnilegasti leikmaður 2. deildarinnar og ég veit að það hefði gengið eftir núna næsta sumar.
Í oktober síðastliðnum fór ég til hjartalæknis og í ljós kom að ég er með hjartasjúkdom sem heitir “hjartalokusjúkdómur” og ég neyðist til þess að fara í stóra aðgerð á næstunni, og hjartað á mér er illa farið.
Læknirinn sagði mér þá það sem ég óttaðist að heyra – að ég megi ekki halda áfram að spila fótbolta og að það geti skaðað hjartað mitt til langtíma ef ég héldi áfram af fullum krafti þar.
Þetta er það erfiðasta sem ég hef heyrt í öllu mínu lífi, og ég hef heyrt ýmislegt og gengið í gegnum ýmislegt erfitt í lífinu.
Undanfarinn mánuð hef ég samt sem áður verið að vinna í mínum málum og litið eins mikið á björtu hliðarnar og ég mögulega get.
Ég tók sjálfan mig í “naflaskoðun” og spurði mig hvað ég ætlaði þá að gera.
Svarið var einfalt. Mig langar til þess að verða besti þjálfari Íslands.
Nú leita ég ráða hjá þér. Hvernig get ég orðið besti þjálfari Íslands og hvað er það sem ég þarf að gera til þess að ná markmiðum mínum í þeim efnum?
Nú er ég að koma að þeim tímapunkti að velja mér háskólanám eftir menntaskóla. Hvaða nám myndi hjálpa mér best í þessum efnum og hjálpa mér að verða top class þjálfari? Hvert get ég farið til þess að afla mér þekkingar á þjálfun?
Takk kærlega fyrir að hafa gefið þér tíma í það að lesa þetta, ég met það mikils.
Kær kveðja
Bjarki Már