Dec 12
5
Hvernig urðu þeir bestir í heimi?
Samkvæmt tölfræði FIFA, (Alþjóða knattspyrnusambandsins) leika 265 milljónir manna knattspyrnu í heiminum í rúmlega 300.000 knattspyrnufélögum. Hvernig má það þá vera að árið 2010 höfðu 3 bestu leikmenn í heimi alist upp hjá einu og sama félaginu?
Árið 2010 stóð kjör besta knattspyrnumanns í heimi á milli Lionel Messi, Xavi Hernández og Andrés Iniesta. Allir voru þeir uppaldir í knattspyrnuakademíu Barcelona. Árið 2009 vann Barcelona meistaradeildina með 8 uppalda leikmenn í byrjunarliðinu sínu. Árið 2010 varð Spánn heimsmeistari með 8 leikmenn úr liði Barcelona, 7 þeirra voru uppaldir í félaginu og 6 þeirra byrjuðu inná í úrslitaleiknum. Það má því færa góð rök fyrir því að besta knattspyrnuakademía í heimi sé La Masia – Knattspyrnuakademía Barcelona og bestu leikmenn í heimi hafi útskrifast þaðan.
Messi, Xavi, Iniesta, Puyol, Busquets, Fabregas og Piqué eru dæmi um nokkra leikmenn sem hafa útskrifast úr knattspyrnuakademíu Barcelona. Listinn er langur og hann telur marga leikmenn sem hafa unnið Meistaradeildina og orðið heims- og Evrópumeistarar með spænska landsliðinu.
Í jafn fjölmennri íþrótt og knattspyrna er þar sem öll félög í heiminum eru að rembast við það sama – að búa til framúrskarandi leikmenn er það magnað að einu félagi takist það svona miklu betur en öllum öðrum. Þess vegna skulum við skoða þetta fyrirbæri – La Masia aðeins betur.
Hvað einkennir bestu knattspyrnuakademíu í heimi? Geta íslensk félög lært eitthvað af knattspyrnuakademíu Barcelona? Hvaða hugmyndafræði er í gangi þar? Hvernig leikmenn velja þeir inn og hvað einkennir þjálfunina hjá þeim? Hver er bakgrunnur þjálfaranna?
Iniesta koma 12 ára til Barcelona, Messi var 13 ára. Báðir voru efnilegir leikmenn en hjá Barcelona náðu þeir að mótast og verða meðal bestu knattspyrnumanna heims.
En hvernig urðu þeir bestir í heimi og hvað getum við lært af því?
Hugmyndafræði Barcelona (lestu hverja setningu vel og spáðu í hvort þetta eigi við um félagið þitt eða þjálfunina sem þú ert að fá sem leikmaður eða hvernig þú þjálfar sem þjálfari):
- “We´re always looking for a type of player who´s not physical but a very good thinker, who´s ready to take decisions, who has talent, technique and agility. Physical strength is not important”. Carles Folguera, stjórnandi knattspyrnuakademíu Barcelona.
- “We grew up here together with the same idea of football in mind and playing according to the same philosophy”. Andrés Iniesta.
- “Up to the age of 16 we don´t do any fitness training with the boys, just practice with the ball. Then we add the fitness training, but always incorporated into exercises with the ball”. Carles Folguera stjórnandi knattspyrnuakademíu Barcelona.
- Leikmenn æfa 1 klukkutíma og 45 mínútur á dag, en lögð er rík áhersla á að æfingin sé á háu tempói. Leikmenn knattspyrnuakademíu Barcelona æfa því ekki endilega meira en önnur lið heldur frekar á annan hátt (meiri áhersla á tækni, sendingar, boltameðferð, leikskilning, hreyfingu án bolta og ákvarðanatöku með boltann frekar en líkamlega þætti sem koma inn seinna en þá líka með bolta!).
- Á milli 200 og 300 leikmenn eru á mála hjá Barcelona hverju sinni, leikmenn allt frá 6 ára aldri. 24 þjálfarar vinna við þjálfun barna og unglinga hjá félaginu og þeir eru allir fyrrum atvinnumenn í knattspyrnu. 10-12 leikmenn eru því per þjálfara sem þýðir mikil gæði í þjálfun og þjálfararnir kunna leikinn út í gegn. Ungir leikmenn fá líka tækifæri í aðalliði félagsins sem er ólíkt mörgum knattspyrnuakademíum hjá stórum liðum.
Knattspyrnuakademía Barcelona kostar yfir milljarð á ári. Barcelona er með 40 njósnara sem leita að börnum og unglingum sem eru efnileg í fótbolta. Félagið kemur öðrum efnilegum leikmönnum fyrir hjá 15 nálægum uppeldisfélögum sem fá ráðgjöf, peninga og þjálfun frá Barcelona.
Sumt getum við ekki yfirfært á Ísland, Barcelona sinnir t.d. bara þeim bestu, á Íslandi sinnum við öllum. Barcelona á meira af peningum en öll félögin á Íslandi samanlagt. En margt annað getum við klárlega yfirfært og lært af. Það er unnið frábært starf í félögum landsins við að móta unga leikmenn í knattspyrnu oft við erfiðar aðstæður og með lítið fjármagn að vopni. Eitt af því góða við fótboltann á Íslandi er metnaður félaganna og þjálfaranna til að gera sífellt betur. Ég vil því segja mitt álit á hvað mér finnst að við ættum að huga að til að gera fótboltann ennþá betri á Íslandi. Þetta er mitt persónulega álit…
- Eins og Lionel Messi sagði hér að ofan á áherslan vera á að auka færni leikmanna. Það gerist fyrst og fremst á æfingum en ekki í keppni. Á æfingu geturðu tekið 100 skot á markið en í leiknum ertu jafnvel heppinn að ná 2 skotum á markið, hvort heldurðu að æfi betur færni þína í að skjóta á markið? Á einni skotæfingu gætirðu náð fleiri skotum á markið en með heilu keppnistímabili af leikjum! Á æfingu geturðu verið með boltann í 90 mínútur stanslaust og snert hann mörg þúsund sinnum. Í leik gætirðu snert hann jafnvel bara 30-40 sinnum. Hvort heldurðu að skili þér betri boltameðferð, tækni og ákvarðanatöku með boltann? Boltameðferð, tækni og ákvarðanir með boltann eru klárlega verkfærin sem þú þarft að leggja áherslu á ef þú ætlar að ná árangri í knattspyrnu í framtíðinni.
- Efnilegustu leikmenn landsins eru margir hverjir að spila með 2-3 mismunandi flokkum. Hættan er að þjálfari hvers flokks, foreldrar og félögin einbeiti sér um of að vinna mótin og þá getur hættan orðið að það markmið sé orðið mikilvægara en þróun á færni leikmannsins. Rannsóknir sína að það að það setur leikmann í mörgum sinnum meiri meiðslahættu að keppa en að æfa. Leikmenn sem koma inn í landsliðin okkar vantar fyrst og fremst betri boltameðferð, sendingagetu og leikskilning. Allir þessir þættir þróast betur á æfingum en í leikjum. Getur verið að leikmenn í yngri flokkum á Íslandi séu að keppa of mikið og æfa of lítið færni sína með boltann?
- Þjálfarar á Íslandi mættu gefa meiri gaum að ungum leikmönnum sem eru flinkir með boltann og taka góðar ákvarðanir með boltann líkt og Barcelona gerir. Þeir leikmenn eru stundum litlir og aumir og hafa því þurft að byggja upp leik sinn öðruvísi til að vera samkeppnisfærir. Þegar líkamlegur styrkur jafnast út seinna meir eru það tæknilega góðu leikmennirnir sem skara framúr. Horfum lengra en að vinna Íslandsmótið í yngri flokkum þegar við veljum í lið. Að þróa færni leikmanna er aðalmarkmiðið. Í hvaða sæti liðið þitt lendir í Íslandsmótinu í yngri flokkum segir ekkert um hversu góður þjálfarinn er. Það er alls ekki bannað að vinna leiki en það á ekki að vera upphaf og endir alls.
- Ef þú ert fótboltaþjálfari eða ungur leikmaður sem vilt ná langt í fótbolta, lestu þá commentin hérna að ofan aftur. Æfðu þig endalaust með boltann. Legðu áherslu á að hafa frábæra tækni, stúderaðu leikmenn sem eru með góða tækni og hermdu eftir þeim. Hermdu eftir öllum trixum sem þú sérð þangað til þú hefur þau á þínu valdi. Vertu jafnfættur. Æfðu allar tegundir af sendingum og mótttöku. Æfðu aukalega en með bolta! En umfram allt stefndu á að verða besta mögulega útgáfan af sjálfum þér, finndu út hvað þú getur náð langt í íþróttinni þinni.
Siggi Raggi