Dec 12
23
Gleðilega hátíð!
Sæl öll,
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.
Takk fyrir árið sem er að líða. Ég vona að þið hafið haft gagn og gaman af þessari síðu. Síðan hefur fengið rúmlega 42.000 heimsóknir á þessum 3 mánuðum c.a. Viðtökurnar hafa því verið frábærar enda síðan hvergi auglýst. Ég hef haft þann háttinn á að þegar ég hef sett inn nýjan pistil hef ég látið hann inn á facebook hjá mér og þaðan hefur hann spurst út og fólk deilt pistlunum ef því líkar við þá.
Það voru nokkrir pistlar sem vöktu mikla athygli á árinu. Við reyndum að breyta heiminum og fengum fyrirtæki með okkur í lið í því og slógum áhorfendamet á kvennalandsleik í kjölfarið um 6.700 manns sáu stelpurnar okkar tryggja sig inn í lokakeppni EM. Sá pistill var m.a. lesinn upp af þingmanni á Alþingi.
Á næsta ári vonast ég til að gera þessa síðu ennþá öflugri. Til þess þarf ég að finna meiri tíma eða fá einhvern sem er klár á tölvur í lið með mér. Eins er ætlun mín á næsta ári að bjóða upp á fleiri möguleika á fyrirlestrum og jafnvel halda námskeið en ég hef fengið fjölmargar svoleiðis fyrirspurnir. Ég vil líka stækka síðuna en það verður að koma í ljós hvort ég finni tíma í það.
Það sem hefur verið hvað mest gefandi er þegar fólk hefur stoppað mig á förnum vegi og þakkað mér fyrir að búa til þessa síðu og skrifa pistlana. Ungt íþróttafólk með metnað eru fastir gestir á þessari síðu. Ég spái því að fyrsti pistill næsta árs muni vekja athygli en ég er langt kominn með hann enda ætla ég að hafa hann góðan og því gefa mér góðan tíma í undirbúning.
Markmiðið er ekki að skrifa pistla á hverjum degi heldur skrifa góða pistla sem nýtast fólki. Ég er ekki að setja inn efni bara til að setja inn efni.
En aftur takk fyrir góðar viðtökur og gangi ykkur vel að ná árangri á nýju ári!
Siggi Raggi