Oct 13
15
Besta ár íslenskrar knattspyrnu
Í dag var sögulegur dagur. Í dag skrifaði A-landslið karla knattspyrnusögu Íslands upp á nýtt. Liðið er komið í umspil fyrir lokakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Stórkostlegur árangur hjá strákunum okkar og öllum sem koma að liðinu. Þar eru á ferð fagmenn með mikinn metnað hver á sínu sviði.
Á þessum merku tímamótum er vert að staldra við og skoða stöðu okkar í knattspyrnunni. Árangur íslenskrar knattspyrnu á þessu ári er nefnilega sá besti í sögunni. A-landslið karla komið í umspil fyrir lokakeppni heimsmeistaramótsins, A-landslið kvenna komst í 8-liða úrslit Evrópumótsins sem er besti árangur liðsins í sögunni. U-21 landsliðið hefur unnið alla leiki sína í riðlinum nema gegn firnasterkum Frökkum og standa vel að vígi með að komast í sína aðra lokakeppni. Öll yngri landslið KSÍ hafa komist upp úr sínum riðlum í undankeppni EM og leika eða léku í milliriðlum. Íslensk félagslið stóðu sig einnig frábærlega í Evrópukeppninni og náðu þar lengra en oftast áður.
Þrír af fimm markahæstu leikmönnum hollensku úrvalsdeildarinnar eru íslenskir. Íslenskir leikmenn leika í ensku og ítölsku úrvalsdeildinni sem eru meðal bestu deilda heims. Íslenskir leikmenn leika að auki í Meistaradeildinni og í Evrópudeildinni. Ísland á um 70 atvinnumenn í knattspyrnu sem spila erlendis og á hverju ári fara ungir leikmenn héðan til liða erlendis sem þekkja orðspor íslenskra leikmanna og sjá þá hæfileika sem sem þeir hafa til að bera.
Íslensk félög eru í auknum mæli farinn að sjá mikilvægi þess að reka bæði öflugt uppeldisstarf og nú ekki síður öflugt afreksstarf því uppeldisfélög okkar bestu atvinnumanna eru farin að fá verulegar tekjur þegar þeir eru seldir á milli liða. Félögin eru farin að sjá að mikilvægt er að vanda til valsins þegar valdir eru þjálfarar fyrir ungu leikmennina í félaginu og að hafa ekki of marga leikmenn hjá hverjum þjálfara á æfingum svo gæðin verði góð og kennslan betri.
Börn í yngstu flokkunum á Íslandi hafa miklu betri æfingaaðstöðu í dag en fyrir rúmum 10 árum síðan. Það er ekki í mörgum löndum þar sem byrjandi getur byrjað að æfa knattspyrnu hjá sínu uppáhaldsfélagi og fengið strax þjálfun hjá menntuðum þjálfara í knattspyrnuhöll eða á góðu gervigrasi. Þeir sem hafa fylgst lengi með íslenskri knattspyrnu sjá að við eigum fleiri flinka leikmenn í dag sem eru með betri tækni, betri mýkt í hreyfingum, betri móttöku og betri sendingar. Grunnurinn að þessu byrjar snemma og aldurinn 8-12 ára er sérstaklega mikilvægur í að þróa þessa eiginleika. Á Íslandi er nær undantekningarlaust þjálfari með menntun að þjálfa þennan aldur. Erlendis er það oftast foreldri eða sjálfboðaliði sem hefur ekki hlotið þjálfaramenntun. Arsene Wenger stjóri Arsenal er þeirrar skoðunar að leikmaður sem er orðinn 13 ára gamall og er ekki með góða boltatækni geti hreinlega ekki náð í fremstu röð í knattspyrnu. Leikmennirnir í A-landsliðinu í knattspyrnu náðu langt af mörgum mismunandi ástæðum. En ég vil leyfa mér að fullyrða að mikilvægur hlekkur í keðjunni voru þjálfararnir sem þeir höfðu hér á Íslandi í yngri flokkum. Án þess grunns hefði undirstaðan ekki verið til staðar þó margir aðrir þættir þurfi að sjálfsögðu að vera til staðar.
Bestu leikmenn Íslands í gegnum tíðina hafa farið ungir út í atvinnumennsku. Þeir hafa þá hlotið góðan grunn hjá menntuðum þjálfurum, hafa æft upp fyrir sig og fengið áskoranir við hæfi. En þá er ennþá mikilvægt skref eftir sem sumir standast og aðrir ekki. Það er að halda áfram að bæta sig, standast mikla samkeppni og stíga skrefið frá því að vera efnilegur í að verða góður eða mjög góður. Til þess þarf vilja, dugnað, metnað, sjálfstraust og fleiri andlega eiginleika sem eru ekki öllum gefnir en hægt er að þjálfa upp rétt eins og líkamlega eiginleika.
Ísland er í 178. sæti yfir fjölmennustu þjóðir heims. A-landslið karla er í 54. sæti heimslistans en 209 þjóðir eru á listanum. A-landslið kvenna er í 15. sæti heimslistans en 176 þjóðir eru á listanum. Á Íslandi búa 325.000 manns. Um 20.000 manns æfa hér knattspyrnu. Við erum jafn fjölmenn og hverfi í meðalstórri borg og keppum við milljónaþjóðir með miklu meira fjármagn og margfaldan iðkendafjölda á við okkur.
Aðrar þjóðir eru farnar að horfa til Íslands með hvernig við högum hér þjálfun ungra leikmanna. Í janúar mun ég halda fyrirlestur á einni af stærstu þjálfararáðstefnum í heiminum til að tala um hvernig Ísland fer að því að búa til svona marga atvinnumenn í knattspyrnu. Árangur landsliðanna í ár, félagsliðanna og árangur okkar í að búa til efnilega leikmenn gefa okkur tilefni til að vera ákaflega stolt og það verður stoltur Íslendingur sem heldur fyrirlesturinn. En við stefnum samt alltaf lengra því við erum Íslendingar. Ný met eru jú einungis til að halda áfram og slá þau. Orð Gylfa Sigurðssonar í viðtali í kvöld eftir leikinn gegn Noregi eru lýsandi fyrir hugarfar landsliðsmanna okkar. “Við fögnum þegar við erum komnir alla leið”.
Hér að neðan er peppvídeóið sem A-landslið karla horfði á áður en þeir lögðu af stað í leikinn í kvöld.
Til hamingju strákar! Íslenska þjóðin er stolt af ykkur og fjörið er rétt að byrja!
Siggi Raggi