Hvað færðu fyrir 109 krónur?

 

Hvað færðu fyrir 109 krónur?

Ríkið greiddi 34.7 milljónir í afrekssjóð ÍSÍ á þessu ári til að styrkja besta íþróttafólkið okkar.  Það búa um 320.000 manns á Íslandi, það gerir c.a. 109 krónur á mann.  Hvað fengum við fyrir þessar 109 krónur?

Jú fyrir þessar 109 krónur sáum við meðal annars:

Hvers virði eru afreksíþróttir á Íslandi?  Hversu mikilvægar eru þær?  Finnst okkur 109 krónur nóg?

Hvers virði var það okkur og börnunum okkar þegar “strákarnir okkar” komu heim með silfurverðlaun frá Ólympíuleikunum?  Hvers virði er það okkur sem þjóð að eiga frábærar fyrirmyndir?   Hvað finnst þér?  Er það 109 króna virði eða meira?

  • Finnst okkur allt í lagi að Ragna Ingólfsdóttir ein af 30-50 bestu badmintonkonum heims hafði ekki efni á almennilegum mat í keppnisferðum og þurfti að reyna að skapa sér aukatekjur með því að selja varning á facebook því litla styrki var að hafa upp í dýran þjálfara- og ferðakostnað?  Var það góður undirbúningur fyrir Ólympíuleikana?  Skyldi þetta vera ein af ástæðunum fyrir því að Ragna er hætt að spila badminton í dag?
  • Finnst okkur í lagi að heilu landsliðin séu lögð niður vegna fjárskorts líkt og hefur gerst hjá körfuknattleikssambandinu og gerðist líka hjá kvennalandsliðinu í fótbolta um tíma fyrir mörgum árum síðan?

Í þessu samhengi er rétt að virða fyrir sér ummæli ráðamanna þjóðarinnar um afreksíþróttafólkið okkar:

“Fyrir okkur er handbolti ekki aðeins íþrótt, heldur mergur þjóðarsálarinnar” Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands”

“Kvennalandsliðið hefur með framgöngu sinni á knattspyrnuvellinum, með sterkri liðsheild bæði innan og utan vallar, lífsgleði og jákvæðni verið öllum góð fyrirmynd um að hægt sé að láta drauma sína rætast. Við erum ákaflega stolt af stelpunum okkar í landsliðinu og þær eru svo sannarlega góðar fyrirmyndir”. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra.

Hvað segir svo afreksfólkið sjálft?

“Íþróttamenn geta ekki áunnið sér nein réttindi á meðan þeir stunda sína íþrótt, líkt og aðrir sem eru á venjulegum vinnumarkaði. Það er  enn mikið verk að vinna í þessum efnum.  Íþróttamenn eru enn að setja sig í miklar skuldir og ég þekki mörg slík tilvik. Ég skil enn ekki af hverju það er ekkert gert til að hlúa betur að okkar íþróttafólki.”  segir Ragna Ingólfsdóttir, afrekskona í badminton.

Í dag er bara einn íþróttamaður á Íslandi sem fær svokallaðan A-styrk spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir sem fær hæsta mögulega styrk sem er í boði en hann er 160.000 krónur á mánuði.  Það er minna en atvinnuleysisbætur.

Stuðningur ríkisins til afrekssjóðs er engan veginn í samræmi við þær væntingar sem við gerum til afreksíþróttafólksins okkar og þann hlýhug, aðdáun og virðingu sem við berum til þeirra.  Þetta eru fyrirmyndir barnanna okkar og við erum stolt af þeim.  Þau eru hluti af ástæðunni fyrir því að 70.000 manns eru skráðir iðkendur innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.  Við hin elskum að horfa á þau og montum okkur og gleðjumst yfir frábærum árangri þeirra.  Við hvetjum börnin okkar til að vera jafn dugleg til að ná jafn langt í lífinu og þau.  Við krefjumst þess líka að þau nái frábærum árangri, yfir öðru fussum við og sveium.  Við borgum jú líka heilar 109 krónur á ári til þeirra í afreksstyrk!

Að styrkja afreksíþróttastarf er hluti af öflugum forvörnum.  Að styrkja afreksíþróttastarf er hluti af því að búa til heilbrigðar og flottar fyrirmyndir sem aftur hvetur börn og unglinga til þess að iðka íþróttir og þar með velja heilbrigðan lífsstíl.  Eftir því sem unglingar stunda meiri íþróttir því minni líkur eru t.d. á vímuefnanotkun sem er dýr samfélaginu okkar.    Er ekki kominn tími til að ráðamenn þjóðarinnar sýni það í verki að afreksíþróttafólkið okkar á meira skilið?  Betra seint en aldrei.

Hvað færðu fyrir 109 krónur?

Svar: Þú færð aðeins lítið brot af því sem við getum áorkað sem íþróttaþjóð.  Við getum gert svo miklu miklu betur.  Búum til fleiri móment eins og sést í vídeóinu hér að neðan.  Búum til fleira afreksíþróttafólk í fremstu röð.  Aukum stuðning okkar við afreksíþróttir á Íslandi.


Siggi Raggi

 

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. 6 Comments

Ráðstefna ÍSÍ og HÍ um afreksíþróttir

Skipta íþróttir máli?

Ráðstefna Háskóla Íslands og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands um stöðu íþrótta í íslensku samfélagi verður haldin miðvikudaginn 28. nóvember nk. klukkan kl. 13.00-16.30. Ráðstefnan verður í Hátíðarsal Háskóla Íslands og er þátttaka öllum að kostnaðarlausu.Markmið með þessu samstarfsverkefni ÍSÍ og HÍ er að efla tengsl og samstarf mismunandi fræðasviða Háskóla Íslands og Íþróttahreyfingarinnar. Tilgangurinn er að vekja athygli á hvernig margþætti vísinda- kennslu og nýsköpunarstarf Háskóli Íslands getur styrkt starfsemi og stöðu íþrótta í íslensku samfélagi.Á ráðstefnunni verður tekið á mörgum málefni sem eru oft í umræðunni og margir hafa skoðanir á; Á að getuskipta börnum í íþróttum? Skiptir félagslegt umhverfi máli í íþróttum? Eru íþróttir menning? Er afrekshugsun þjálfuð í nægilegum mæli? Svör við þessum spurningum og mörgum öðrum verður leitast við að svara miðvikudaginn 28. nóvember. Ráðstefna sem þeir sem áhuga hafa á málefninu ættu ekki að missa af.Þrátt fyrir að þátttakan sé öllum að kostnaðarlausu þá verður að skrá sig á skraning@isi.isfyrir hádegi mánudaginn 26. nóvember.Dagskrá:
13.00  Setning
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands

Almennt íþróttastarf

Á að banna getuskiptingu barna í hópíþróttum?
Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Íþrótta,- tómstunda- og þroskaþjálfadeild HÍ

Félagslegt umhverfi árangurs í íþróttum: Ný sóknarfæri?
Dr. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur

Sjúk sál í slöppum líkama – Nokkrar menningarsögulegar hugrenningar um úrkynjun og íþróttir
Dr. Benedikt Hjartarson, aðjúnkt í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við HÍ

Kaffihlé 14.15-14.30
14:30 Afreksíþróttir

Afreksíþróttir hagkvæmar!
Dr. Daði Kristófersson, dósent við Hagfræðideild HÍ

Svo bregðast krossbönd
Dr. Kristín Briem, dósent. námsbraut í sjúkraþjálfun við Heilbrigðisvísindasvið, HÍ

“Ég ætla að breyta íþróttinni minni” – þjálfun afrekshugarfars –
Sigurður Ragnar Eyjólfsson M.Sc. í íþróttasálfræði og A-landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu

Ytra umhverfi íþróttahreyfingarinnar
Ólafur Rafnsson forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Ráðstefnustjórar eru Erlingur Jóhannsson prófessor við HÍ, Ólafur Eiríksson sundmaður og hæstaréttarlögmaður, Sunna Gestdóttir, frjálsar íþróttir og doktorsnemi við HÍ og Hjördís Guðmundsdóttir verkefnisstjóri hjá ÍSÍ.

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Follow your heart

“Your time is limited, so don’t waste it living someone else’s life. Don’t be trapped by dogma – which is living with the results of other people’s thinking. Don’t let the noise of others’ opinions drown out your own inner voice. And most important, have the courage to follow your heart and intuition. They somehow already know what you truly want to become. Everything else is secondary.” 
Steve Jobs stjórnandi Apple.

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Engar afsakanir!

Þegar ég var á aldrinum 18-20 ára spilaði ég með liði KR í efstu deild í knattspyrnu og vann hjá BogL við að afgreiða varahluti í Lödur (já ég veit, ekki skemmtilegt!).   Íris konan mín spilaði fótbolta með Val og vann á Íþrótta- og leikjanámskeiði Vals sem hét Sumarbúðir í borg.  Við áttum 1 bíl saman svo ég sótti hana yfirleitt eftir æfingu á sumrin niður í Valsheimili.

Eitt kvöldið þegar við vorum á heimleið sagði Íris við mig: “Af hverju æfir þú ekki tvisvar á dag eins og margir sem ég er að vinna með í sumarbúðunum?”.  Ég svaraði: “Ég er að vinna frá 9.00-18.00 fer svo beint á æfingu og svo heim að borða og sofa, hvenær á ég að ná annarri æfingu”?  Íris sagði þá : “Þú getur æft í hádeginu eins og þeir sem ég er að vinna með”.  Ég svaraði: “Nei þá verð ég bara þreyttur og ég þarf tíma til að fara að borða og svo fæ ég bara hálftíma í matarhlé”.

Ég fann semsagt allar afsakanir í bókinni til að fara ekki að æfa tvisvar á dag.

Íris sagði mér líka frá því að þeir sem hún var að vinna með æfðu sig aukalega í hádegishlénu og voru jafnvel  í þessari vinnu til að geta æft meira eða leikið sér með bolta á daginn.  Ég lét mér fátt um finnast.

Af hverju er ég að segja þessa sögu hér?  Jú það er athyglisvert að líta tilbaka og skoða þá samstarfsmenn sem Íris var að vinna með og voru svo framsýnir og duglegir og metnaðarfullir að æfa tvisvar á dag og leika sér með boltann sjálfir aukalega til að ná metnaðarfullu markmiðunum sínum. Þegar þeir unnu með Írisi voru þeir ekkert mjög þekktir en nú eru komin mörg ár síðan svo við skulum sjá hvað varð úr þeim og ferlinum þeirra.  Kannski kannist þið við þá, hér koma nöfnin þeirra:

Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður (smelltu á nafnið til að sjá ferilinn hans)

Ívar Ingimarsson knattspyrnumaður (smelltu á nafnið til að sjá ferilinn hans)

Snorri Steinn Guðjónsson handboltamaður (smelltu á nafnið til að sjá ferilinn hans)

Get ekki sagt annað en að það hafi virkað fyrir þá að æfa tvisvar á dag og leika sér sjálfir aukalega með boltann!

Það er þó langt í frá eina ástæðan fyrir því að þeir náðu langt í sinni íþrótt, en meira um það síðar.

Ef ég á að gefa þér bara eitt gott ráð til að skara fram úr í íþróttum þá myndi það vera æfðu þig aukalega

og engar afsakanir!


Siggi Raggi

 

 

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. 2 Comments

Til hamingju með afmælið

Til hamingju með afmælið siggiraggi.is.

Síðan er 1 mánaðar gömul.  Þennan fyrsta mánuð hafa rúmlega 20.000 manns kíkt á síðuna eða um 700 manns á dag að meðaltali.

Hátt í 4.000 manns hafa deilt pistlum af síðunni á facebook.  Takk fyrir mig.  Það er auðvitað frábært ef efnið sem hér er birt er inspiration fyrir ykkur um að ná árangri.

Allnokkrir hafa beðið mig um að halda fyrirlestra fyrir fyrirtækin sín eða íþróttahópana sína undanfarið.  Það er gaman og gefandi svo takk fyrir að hafa samband.  Það er hægt að senda mér fyrirspurn um fyrirlestra á siggiraggi73@gmail.com endilega hafið samband.

Mánuður liðinn á www.siggiraggi.is

Til hamingju með afmælið!

Siggi Raggi

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments