Dec 12
5
Þegar ég var að flytja heim til Íslands úr atvinnumennsku í knattspyrnu vantaði mig vinnu og einn daginn hringdi síminn hjá mér. Svali Björgvinsson hringdi í mig og bauð mér að kenna íþróttasálfræði við Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Þar sem ég hafði enga vinnu sagði ég já og tók það að mér.
Í gegnum 20 ára skólagöngu mína man ég ekki eftir að hafa þurft að standa upp og tala fyrir framan hóp í lengur en c.a. 10 mínútur. Ég var óvanur að koma fram fyrir framan hóp eða jafnvel segja mína skoðun fyrir framan hóp. En ég hafði brennandi áhuga fyrir íþróttasálfræði sem ég hafði lært og því var þetta spennandi tilboð.
Íþróttasálfræðikennslan á Laugarvatni fór þannig fram að ég þurfti að kenna í 4 klukkutíma samfleytt! Þetta var því mjög stressandi. Hefðir þú tekið slíkri áskorun? Þegar ég spyr 100 manna hóp hvort einhverjir séu til í að koma upp og halda ræðu eru kannski 5 sem þora að rétta upp hönd. Að halda ræðu er ein af stærstu fóbíum sem fólk hefur. En að sama skapi er það tækifæri fyrir þig að öðlast eiginleika sem fáir hafa. Hefðir þú stigið út fyrir þægindarammann þinn líkt og ég gerði og litið á þetta sem frábæra áskorun eða hefðir þú tekið auðveldu leiðina út og hafnað kennslustarfinu?
Ég var pottþétt ekki góður fyrirlesari strax en það var þroskandi og lærdómsríkt að byrja að kenna öðrum. Ef þú kennir eitthvað þarftu nefnilega að kunna það mjög vel sjálfur, þú þarft að vera vel undirbúinn, gera ráð fyrir erfiðum spurningum, helst kunna meira en það sem kennslubókin segir, þú þarft líka að geta komið þekkingunni á framfæri á lifandi, skemmtilegan og einfaldan hátt svo nemendur skilji og það eru heil vísindi útaf fyrir sig. Þú þarft að læra að sannfæra fólk. Aðrir myndu segja að það sé list. Sennilega er það bæði.
Kennslan auðveldaði mér svo að taka á móti hópum á þjálfaranámskeiðum KSÍ þegar ég hóf að vinna þar sem fræðslustjóri en þar höfum við haldið hátt í 150 þjálfaranámskeið síðan ég byrjaði þar fyrir 10 árum síðan. Þar var ég sífellt að taka á móti nýjum hópum. Smátt og smátt fór stressið og smám saman varð ég betri fyrirlesari og kennari.
Svo fór ég að þjálfa kvennalandsliðið árið 2007. Það auðveldaði mér þjálfarastarfið að hafa staðið oft fyrir framan hópa og talað. Í þjálfarastarfinu er maður alltaf að standa fyrir framan hóp og koma sínum skoðunum og þekkingu á framfæri. Eftir að kvennalandsliðið náði góðum árangri fóru brátt aðrir knattspyrnuþjálfarar og íþróttaþjálfarar að hafa samband við mig og biðja mig um að halda fyrirlestra um hvernig við höfðum farið að því að ná árangri. Svo fóru skólar og afreksíþróttabrautir að hafa samband.
Einn daginn hringdi í mig starfsmannastjóri hjá fyrirtæki og spurði hvort ég hefði eitthvað haldið fyrirlestra fyrir fyrirtæki. Ég sagði “nei en einhvern tímann verður allt fyrst”. Starfsmannastjórinn bað mig þá um að halda fyrirlestur fyrir fyrirtækið sitt og ég spurði “hvað verða margir starfsmenn á fyrirlestrinum”? Hann svaraði 800 manns! Hefðir þú sagt já við þeirri áskorun, stigið út fyrir þægindarammann þinn og sagt já eða tekið auðveldu leiðina út og sagt nei?
Ég sagði já og minn fyrsti fyrirlestur fyrir fyrirtæki var fyrir alla starfsmenn Landsbankans á Íslandi um 800 manns alls. Það var auðvitað pínu stressandi en góð áskorun. Eftir þetta hef ég talað við mjög mörg fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum, bæði starfsmenn og stjórnendur. Eftir því sem ég hef æft mig meira því betri fyrirlesari hef ég orðið.
Verkefnin hafa orðið meira og meira krefjandi, ég hef þurft að stjórna ráðstefnum á ensku, flytja fyrirlestra erlendis á ensku fyrir framan fagfólk, halda fyrirlestur fyrir valdamesta mann í heiminum í knattspyrnu, halda fyrirlestur um liðsheild fyrir ráðherra, þingmenn og stjórnendur heils þingsflokks eins og ég gerði í síðustu viku, ég hef haldið fyrirlestra fyrir landslið í mörgum greinum, okkar besta afreksíþróttafólk svo og unglinga sem dreymir um að ná langt í íþróttum.
Ekkert af þessu stressar mig lengur. Með aukinni æfingu hef ég nefnilega orðið góður fyrirlesari og með því að segja já við krefjandi verkefnum og stíga út fyrir þægindarammann minn þegar auðveldara hefði verið að segja nei hef ég náð aukinni færni og reynslu. Ég hugsa stundum tilbaka og velti fyrir mér hvernig lífið mitt hefði þróast ef ég hefði sagt nei við kennslunni á Laugarvatni og ekki þorað að sækja um fræðslustjórastöðuna hjá KSÍ því staðan krafðist þess að tala reglulega fyrir framan hópa. Sumir ganga nefnilega í gegnum lífið og forðast að gera mistök í staðinn fyrir að stökkva á tækifærin þegar þau bjóðast, æfa sig og verða betri.
Það hafa verið algjör forréttindi að fá að tala við þá mörg þúsund íslendinga sem ég hef fengið að halda fyrirlestra fyrir. Það dýrmætasta sem fólk á er nefnilega tími þess og það fórnar klukkutíma af lífi sínu til að leyfa mér að tala við sig. Ég vona að sá klukkutími hafi haft jákvæð áhrif á líf fólks og hitt í mark. Næst þegar þú færð krefjandi áskorun skaltu segja já. Vegna þess að hvert tækifæri opnar nýjar dyr og við þroskumst við að taka að okkur áskoranir í lífinu.
Æfingin skapar meistarann.
Siggi Raggi
Samkvæmt tölfræði FIFA, (Alþjóða knattspyrnusambandsins) leika 265 milljónir manna knattspyrnu í heiminum í rúmlega 300.000 knattspyrnufélögum. Hvernig má það þá vera að árið 2010 höfðu 3 bestu leikmenn í heimi alist upp hjá einu og sama félaginu?
Árið 2010 stóð kjör besta knattspyrnumanns í heimi á milli Lionel Messi, Xavi Hernández og Andrés Iniesta. Allir voru þeir uppaldir í knattspyrnuakademíu Barcelona. Árið 2009 vann Barcelona meistaradeildina með 8 uppalda leikmenn í byrjunarliðinu sínu. Árið 2010 varð Spánn heimsmeistari með 8 leikmenn úr liði Barcelona, 7 þeirra voru uppaldir í félaginu og 6 þeirra byrjuðu inná í úrslitaleiknum. Það má því færa góð rök fyrir því að besta knattspyrnuakademía í heimi sé La Masia – Knattspyrnuakademía Barcelona og bestu leikmenn í heimi hafi útskrifast þaðan.
Messi, Xavi, Iniesta, Puyol, Busquets, Fabregas og Piqué eru dæmi um nokkra leikmenn sem hafa útskrifast úr knattspyrnuakademíu Barcelona. Listinn er langur og hann telur marga leikmenn sem hafa unnið Meistaradeildina og orðið heims- og Evrópumeistarar með spænska landsliðinu.
Í jafn fjölmennri íþrótt og knattspyrna er þar sem öll félög í heiminum eru að rembast við það sama – að búa til framúrskarandi leikmenn er það magnað að einu félagi takist það svona miklu betur en öllum öðrum. Þess vegna skulum við skoða þetta fyrirbæri – La Masia aðeins betur.
Hvað einkennir bestu knattspyrnuakademíu í heimi? Geta íslensk félög lært eitthvað af knattspyrnuakademíu Barcelona? Hvaða hugmyndafræði er í gangi þar? Hvernig leikmenn velja þeir inn og hvað einkennir þjálfunina hjá þeim? Hver er bakgrunnur þjálfaranna?
Iniesta koma 12 ára til Barcelona, Messi var 13 ára. Báðir voru efnilegir leikmenn en hjá Barcelona náðu þeir að mótast og verða meðal bestu knattspyrnumanna heims.
En hvernig urðu þeir bestir í heimi og hvað getum við lært af því?
Hugmyndafræði Barcelona (lestu hverja setningu vel og spáðu í hvort þetta eigi við um félagið þitt eða þjálfunina sem þú ert að fá sem leikmaður eða hvernig þú þjálfar sem þjálfari):
Knattspyrnuakademía Barcelona kostar yfir milljarð á ári. Barcelona er með 40 njósnara sem leita að börnum og unglingum sem eru efnileg í fótbolta. Félagið kemur öðrum efnilegum leikmönnum fyrir hjá 15 nálægum uppeldisfélögum sem fá ráðgjöf, peninga og þjálfun frá Barcelona.
Sumt getum við ekki yfirfært á Ísland, Barcelona sinnir t.d. bara þeim bestu, á Íslandi sinnum við öllum. Barcelona á meira af peningum en öll félögin á Íslandi samanlagt. En margt annað getum við klárlega yfirfært og lært af. Það er unnið frábært starf í félögum landsins við að móta unga leikmenn í knattspyrnu oft við erfiðar aðstæður og með lítið fjármagn að vopni. Eitt af því góða við fótboltann á Íslandi er metnaður félaganna og þjálfaranna til að gera sífellt betur. Ég vil því segja mitt álit á hvað mér finnst að við ættum að huga að til að gera fótboltann ennþá betri á Íslandi. Þetta er mitt persónulega álit…
Siggi Raggi
Undanfarið hef ég haldið töluvert af fyrirlestrum um hvað þarf til að ná árangri svo ég hef ekki verið neitt sérstaklega duglegur að uppfæra heimasíðuna mína. Meðal þeirra sem hafa undanfarið fengið og pantað fyrirlestur frá mér undanfarið eru:
Á miðvikudaginn mun ég svo halda fyrirlestur á fróðlegri ráðstefnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Háskóla Íslands. Ráðstefnan heitir Skipta íþróttir máli?. Ef þú vilt panta fyrirlestur fyrirtækið þitt eða hópinn þinn, hafðu þá endilega samband. Ég er með siggiraggi73@gmail.com og 848-8040.
Siggi Raggi
Nov 12
20