Ég hef verið landsliðsþjálfari í rúm 6 ár og hef valið um 50 leikmenn í landsliðið á þessum tíma. Til að velja þessa 50 leikmenn hef ég mætt á nokkur hundruð leiki hjá félagsliðunum til að horfa á þær spila. Á hverjum einasta leik hitti ég mömmur og pabba stelpnanna. Þau eru mætt hvernig sem viðrar eða árar að styðja við bakið á dætrum sínum. Stuðningsmenn númer 1 og öxlin til að gráta á þegar gengur illa. Í flestum tilvikum hefur stuðningur þessara foreldra ekki bara byrjað þegar stelpurnar komust í A-landsliðið heldur byrjaði hann þegar þær voru litlar.
Einhvern tímann byrjuðu nefnilega stelpurnar þeirra að æfa fótbolta og síðan eru að baki mörg þúsund skutl á æfingar, þvottur á æfingafötum, fjáraflanir í utanlandsferðir, sjálfboðaliðastörf fyrir félagið og flokkinn þeirra, greiðsla á æfingagjöldum, kaup á æfingafatnaði og ómældum pörum af takkaskóm.
Foreldrar Dagnýjar Brynjarsdóttur landsliðskonu létu sig þannig ekki muna um að skutla stelpunni sinni frá Hellu til Reykjavíkur á æfingar hjá Val nokkrum sinnum í viku í meira en heilt ár þegar Dagný var ung og efnileg stelpa úr sveitinni og var ekki komin með bílpróf sjálf því hvað gerir maður ekki fyrir stelpuna sína til að styðja hana í að verða betri og ná árangri? Hvernig skyldi foreldrum Dagnýjar hafa liðið í stúkunni á síðasta landsleik þegar Dagný skoraði úrslitamarkið í 3-2 sigri Íslands á Úkraínu fyrir framan 6.647 stuðningsmenn A-landsliðs kvenna á Laugardalsvelli og tryggði þar með Íslandi sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins? Stolt? Gæsahúð? Gleði? Eða tilfinningar svo stórkostlegar að það er erfitt að gefa þeim nafn?
Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðskona sleit krossbönd þegar hún var unglingur og var meira og minna frá knattspyrnuiðkun í 2 ár. Það hlýtur að hafa verið henni mjög erfiður tími því fáum finnst jafn gaman að æfa og keppa. Pabbi Söru studdi endalaust við bakið á henni með því að fara með henni út að hlaupa og leika sér með bolta með henni hvenær sem hún óskaði eftir því. Endalaust oft hef ég hitt mömmu og pabba Söru á leikjum hennar. Aðspurð segir Sara eins og margar af stelpunum í landsliðinu að fyrirmyndir hennar eru einmitt foreldrarnir. Hvernig skyldi foreldrunum hafa liðið eftir þennan erfiða tíma þegar Sara Björk var svo valin í A-landsliðið skömmu eftir að hún byrjaði að æfa aftur aðeins 16 ára gömul? Já hver getur útskýrt tilfinninguna að sjá barnið sitt í landsliðsbúningnum á þjóðarleikvangnum að fara að spila landsleik fyrir hönd Íslands? Er það stolt? Gæsahúð? Gleði? Eða tilfinningar svo stórkostlegar að það er erfitt að gefa þeim nafn?
Svona sögur eru ekki undantekningin heldur dæmigerða sagan af þeim stuðningi sem stelpurnar í landsliðinu hafa hlotið frá mömmum sínum og pöbbum í gegnum knattspyrnuferilinn allan. Þið mömmur og pabbar eigið alla mína virðingu og ég tek hatt minn ofan fyrir ykkur. Án ykkar stuðnings ætti Ísland ekki heimsklassa landslið í fótbolta og ykkar stuðningur hjálpar liðinu okkar endalaust mikið.
Næsta sumar fara stelpurnar okkar í úrslitakeppni Evrópumóts A-landsliða kvenna í Svíþjóð. Það er bara í annað skipti í sögunni sem Ísland mun leika í lokakeppni A-landsliða í knattspyrnu. Hápunktur ferils hvers leikmanns í fótbolta er að vera fulltrúi þjóðarinnar á slíku augnabliki. Ég veit að þar mun ég sjá ykkur mömmur og pabbar þar sem þið verðið mætt í stúkuna til að styðja við bakið á stelpunum ykkar. Ég vona af öllu hjarta að þar munið þið upplifa stolt, gæsahúð, gleði og tilfinningar svo stórkostlegar að það verður erfitt að gefa þeim nafn.
Feb 13
25
Takk kærlega öll fyrir góðar viðtökur á þessari síðu en hún hefur núna fengið 50.000 heimsóknir síðan ég byrjaði með hana fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ég hef sett inn pistla um hvað þarf til að ná árangri og margt annað sem mér hefur fundist áhugavert. Ég var í upphafi efins um hvort ég ætti að fara af stað með síðuna en í dag er ég ánægður með að hafa stigið þetta skref. . Ég hef sett inn pistla þegar ég hef haft tíma og sumir hafa vakið athygli og fengið fólk til að hugsa. Vinsælasti pistillinn fékk rúmlega 11.500 heimsóknir á 2 sólarhringum og hét “Þú getur breytt heiminum“. Yfir 3.000 manns deildu þeim pistli á facebook.
Ég vona að síðan verði ykkur hvatning áfram.
Siggi Raggi
Í starfi mínu sem landsliðsþjálfari er ég stöðugt að reyna að meta hvaða leikmenn munu skara fram úr í framtíðinni. Yngri landsliðsþjálfarar spá stöðugt í hverjir eru efnilegustu leikmennirnir og verða seinna A-landsliðsmenn. Íþróttafélög velta fyrir sér sömu spurningu. Fyrir félögin getur þetta skipt mjög miklu máli því allir vilja eignast frábæra uppalda leikmenn og með því að hafa efnilega leikmenn opnast möguleikinn á að þeir fari seinna til stórra liða fyrir háar fjárhæðir og geti þannig skapað félögunum miklar tekjur.
Hvað er þá efnilegur leikmaður? Er það leikmaður með hraða, tækni, sjálfstraust, hugarfar eða hverju eigum við að leita eftir?
Það er gríðarlega erfitt að segja til um hverjir munu ná árangri. Arsene Wenger stjóri Arsenal missti af Zlatan Ibrahimovic og Ronaldo á sínum tíma. Fjölmörg svipuð dæmi má nefna úr íþróttum. Á aðeins 3 árum eða svo fór Aron Jóhannsson frá því að vera leikmaður í 1.deild á Íslandi í að vera einn markahæsti leikmaður Danmerkur og keyptur yfir til Hollands á háar fjárhæðir. Alfreð Finnbogason fór á nokkrum árum frá því að vera varamaður í 2.flokki Breiðabliks í að verða einn markahæsti leikmaður Hollands. Michael Jordan komst ekki í skólaliðið sitt í körfubolta þegar hann var 16 ára en var orðinn besti leikmaður heims nokkrum árum seinna.
Sá eiginleiki sem mér finnst persónulega hafa besta forspárgildið um hvort leikmaður nái langt er hversu “self-motivated” leikmaðurinn er. Hversu mikinn sjálfsaga leikmaðurinn hefur og hvað hann er tilbúinn að leggja mikið á sig til að skara framúr. Mér finnst meiri líkur á að sá leikmaður skari fram úr heldur en sá sem er afgerandi fljótur eða áberandi flinkur o.s.frv. en skortir þessa eiginleika. Ef þú finnur leikmann sem er mjög “self-motivated” og hefur að auki framúrskarandi annan eiginleika sem nýtist í íþróttinni ertu með stórauknar líkur á að viðkomandi nái árangri. Keppnisskap skiptir líka gríðarlegu máli, bestu leikmennirnir eiga það sameiginlegt að þola ekki að tapa og leggja á sig gríðarlega vinnu til að sigra og ná árangri.
Í fyrra var ég í sambandi við Peter Vint prófessor sem kenndi mér í University of North Carolina at Greensboro en er núna high performance director hjá United States Olympic Committee, hann er eftirsóttur fyrirlesari um allan heim um talent identification og talent development enda vinnur hann með Ólympíuíþróttafólki Bandaríkjanna. Það segir kannski mikið um þessa list að spotta út efnilegt íþróttafólk að hann sagði eitthvað í þá veru að ef hann ætti 100 milljónir í að búa til afreksfólk í íþróttum myndi hann eyða 1 milljón í að reyna að finna efnilegasta íþróttafólkið en 99 milljónum í að þjálfa það upp.
Hér að neðan er svo mjög áhugaverður fyrirlestur um það hverju við ættum að líta eftir þegar við veljum efnilega leikmenn.
Siggi Raggi
Margir hafa haft samband við mig undanfarið og pantað hjá mér fyrirlestur. Meðal þeirra sem ég hef haldið fyrirlestra hjá undanfarið eru stjórnendur Lyfju, Keilir þekkingarmiðstöð, starfsfólk Reykjanesbæjar, iðkendur og þjálfarar UMFN, Sparnaður, Borgun, stjórnendur, þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar, Landsnet, Landsbankinn og fleiri. Allir vilja reyna að ná betri árangri.
Síðustu mánuði hafa einstaklingar líka haft samband og spurt hvort þeir geti keypt af mér fyrirlestur sem þeir geta þá fengið sendan til sín í gegnum vefslóð. Ég er að velta fyrir mér að bjóða upp á fyrirlestur til einstaklinga bráðlega til sölu sem heitir Hvað þarf til að ná árangri – Hugarfar sigurvegarans. Fyrirlesturinn er klukkutíma langur og nýtist öllum sem vilja ná betri árangri í starfi sínu, í íþróttum, námi eða hverju sem er.
Til að þetta gangi upp þarf ég að fá að vita c.a. hver margir myndu hafa áhuga á að kaupa fyrirlesturinn. Þið sem hafið áhuga megið þið senda mér póst á siggiraggi73@gmail.com svo ég sjái betur þann fjölda sem myndi hafa áhuga á að kaupa þennan fyrirlestur og ég gæti þá sent ykkur hann um leið og hann er klár.
Hér má sjá stutt brot úr þessum fyrirlestri hjá mér:
Hlakka til að heyra frá ykkur!
Siggi Raggi
Jan 13
29
Að mótivera fólk er bæði list og vísindi. Á bakvið það eru ákveðin fræði og það er nauðsynlegt að hafa þann bakgrunn og þekkingu ef maður vill verða mjög góður í því að mótivera aðra. Íþróttasálfræðin er fræðigrein sem stúderar áhugahvöt (motivation) í íþróttum. Þegar ég lít tilbaka á þá þjálfara og kennara sem ég hafði sjálfur voru sumir þeirra þannig að maður hefði vaðið eld og brennistein fyrir þá á meðan aðrir höfðu lítil sem engin áhrif á mig. Hvers vegna? Hvað var það við þá sem fékk mig til þess að smitast eða mótiverast?
Margir halda að það að mótivera sé trix. Þjálfarar vilja oft læra trix sem þeir geta sagt í hálfleik til að snúa leiknum við. Þessi trix eru því miður ekki til. Það sem gildir er að stúdera mannlega hegðun og gerast sérfræðingur í hvernig týpa viðkomandi leikmaður er og prófa sig áfram og sjá hvað virkar á viðkomandi einstakling. Sumir mótiverast við að fá spark í rassinn, aðrir ekki. Sumir mótiverast við að það sé öskrað á þá, hjá öðrum hefur það þveröfug áhrif. Sumir mótiverast af rökum, aðrir ekki. Sumir mótiverast af fyrirmyndum, aðrir ekki. Sumir mótiverast af því að vera hluti af liðsheild, aðrir ekki. Sumir mótiverast af keppni, aðrir ekki. Svona mætti telja lengi áfram, það eru engir tveir alveg eins. Að mótivera verður því sérstaklega snúið í liðsíþrótt því það sem þú segir og gerir hefur ekki sömu áhrif á alla leikmennina.
Það að mótivera fólk kalla ég stundum að smita fólk. Að smita fólk af eldmóði, að fá það til að leggja meira á sig en það hefði gert. Ein besta tilvitnun sem ég hef séð varðandi það að smita fólk og þar með hafa áhrif á það er tilvitnun frá Winston Churchill og er svona:
“Before you can inspire with emotion, you must be swamped with it yourself. Before you can move their tears, your own must flow. To convince them, you must yourself believe.”
Þú þarft því að hafa ástríðu ef þú vilt smita fólk.
Viltu panta fyrirlestur um hvað þarf til að ná árangri? Hafðu samband. siggiraggi73@gmail.com eða í síma 848-8040.