Besta ár íslenskrar knattspyrnu

Í dag var sögulegur dagur.  Í dag skrifaði A-landslið karla knattspyrnusögu Íslands upp á nýtt.  Liðið er komið í umspil fyrir lokakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.  Stórkostlegur árangur hjá strákunum okkar og öllum sem koma að liðinu.  Þar eru á ferð fagmenn með mikinn metnað hver á sínu sviði.

Á þessum merku tímamótum er vert að staldra við og skoða stöðu okkar í knattspyrnunni.  Árangur íslenskrar knattspyrnu á þessu ári er nefnilega sá besti í sögunni.  A-landslið karla komið í umspil fyrir lokakeppni heimsmeistaramótsins, A-landslið kvenna komst í 8-liða úrslit Evrópumótsins sem er besti árangur liðsins í sögunni.  U-21 landsliðið hefur unnið alla leiki sína í riðlinum nema gegn firnasterkum Frökkum og standa vel að vígi með að komast í sína aðra lokakeppni.  Öll yngri landslið KSÍ hafa komist upp úr sínum riðlum í undankeppni EM og leika eða léku í milliriðlum.  Íslensk félagslið stóðu sig einnig frábærlega í Evrópukeppninni og náðu þar lengra en oftast áður.

Þrír af fimm markahæstu leikmönnum hollensku úrvalsdeildarinnar eru íslenskir.  Íslenskir leikmenn leika í ensku og ítölsku úrvalsdeildinni sem eru meðal bestu deilda heims.  Íslenskir leikmenn leika að auki í Meistaradeildinni og í Evrópudeildinni.  Ísland á um 70 atvinnumenn í knattspyrnu sem spila erlendis og á hverju ári fara ungir leikmenn héðan til liða erlendis sem þekkja orðspor íslenskra leikmanna og sjá þá hæfileika sem sem þeir hafa til að bera.

Íslensk félög eru í auknum mæli farinn að sjá mikilvægi þess að reka bæði öflugt uppeldisstarf og nú ekki síður öflugt afreksstarf því uppeldisfélög okkar bestu atvinnumanna eru farin að fá verulegar tekjur þegar þeir eru seldir á milli liða.  Félögin eru farin að sjá að mikilvægt er að vanda til valsins þegar valdir eru þjálfarar fyrir ungu leikmennina í félaginu og að hafa ekki of marga leikmenn hjá hverjum þjálfara á æfingum svo gæðin verði góð og kennslan betri.

Börn í yngstu flokkunum á Íslandi hafa miklu betri æfingaaðstöðu í dag en fyrir rúmum 10 árum síðan. Það er ekki í mörgum löndum þar sem byrjandi getur byrjað að æfa knattspyrnu hjá sínu uppáhaldsfélagi og fengið strax þjálfun hjá menntuðum þjálfara í knattspyrnuhöll eða á góðu gervigrasi. Þeir sem hafa fylgst lengi með íslenskri knattspyrnu sjá að við eigum fleiri flinka leikmenn í dag sem eru með betri tækni, betri mýkt í hreyfingum, betri móttöku og betri sendingar.  Grunnurinn að þessu byrjar snemma og aldurinn 8-12 ára er sérstaklega mikilvægur í að þróa þessa eiginleika.  Á Íslandi er nær undantekningarlaust þjálfari með menntun að þjálfa þennan aldur.  Erlendis er það oftast foreldri eða sjálfboðaliði sem hefur ekki hlotið þjálfaramenntun.  Arsene Wenger stjóri Arsenal er þeirrar skoðunar að leikmaður sem er orðinn 13 ára gamall og er ekki með góða boltatækni geti hreinlega ekki náð í fremstu röð í knattspyrnu.  Leikmennirnir í A-landsliðinu í  knattspyrnu náðu langt af mörgum mismunandi ástæðum.  En ég vil leyfa mér að fullyrða að mikilvægur hlekkur í keðjunni voru þjálfararnir sem þeir höfðu hér á Íslandi í yngri flokkum.  Án þess grunns hefði undirstaðan ekki verið til staðar þó margir aðrir þættir þurfi að sjálfsögðu að vera til staðar.

Bestu leikmenn Íslands í gegnum tíðina hafa farið ungir út í atvinnumennsku.  Þeir hafa þá hlotið góðan grunn hjá menntuðum þjálfurum, hafa æft upp fyrir sig og fengið áskoranir við hæfi.  En þá er ennþá mikilvægt skref eftir sem sumir standast og aðrir ekki.  Það er að halda áfram að bæta sig, standast mikla samkeppni og stíga skrefið frá því að vera efnilegur í að verða góður eða mjög góður. Til þess þarf vilja, dugnað, metnað, sjálfstraust og fleiri andlega eiginleika sem eru ekki öllum gefnir en hægt er að þjálfa upp rétt eins og líkamlega eiginleika.

Ísland er í 178. sæti yfir fjölmennustu þjóðir heims. A-landslið karla er í 54. sæti heimslistans en 209 þjóðir eru á listanum.  A-landslið kvenna er í 15. sæti heimslistans en 176 þjóðir eru á listanum.  Á Íslandi búa 325.000 manns.  Um 20.000 manns æfa hér knattspyrnu. Við erum jafn fjölmenn og hverfi í meðalstórri borg og keppum við milljónaþjóðir með miklu meira fjármagn og margfaldan iðkendafjölda á við okkur.

Aðrar þjóðir eru farnar að horfa til Íslands með hvernig við högum hér þjálfun ungra leikmanna.  Í janúar mun ég halda fyrirlestur á einni af stærstu þjálfararáðstefnum í heiminum til að tala um hvernig Ísland fer að því að búa til svona marga atvinnumenn í knattspyrnu.  Árangur landsliðanna í ár, félagsliðanna og árangur okkar í að búa til efnilega leikmenn gefa okkur tilefni til að vera ákaflega stolt og það verður stoltur Íslendingur sem heldur fyrirlesturinn.  En við stefnum samt alltaf lengra því við erum Íslendingar.  Ný met eru jú einungis til að halda áfram og slá þau.  Orð Gylfa Sigurðssonar í viðtali í kvöld eftir leikinn gegn Noregi eru lýsandi fyrir hugarfar landsliðsmanna okkar.  “Við fögnum þegar við erum komnir alla leið”.

Hér að neðan er peppvídeóið sem A-landslið karla horfði á áður en þeir lögðu af stað í leikinn í kvöld.
Til hamingju strákar! Íslenska þjóðin er stolt af ykkur og fjörið er rétt að byrja!

Siggi Raggi

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Takk fyrir allt Guðni

Ber er hver að baki nema sér bróður eigi.  Bróðir minn í þjálfun A-landsliðs kvenna var Guðni Kjartansson.  Eftir lokakeppni Evrópumótsins í sumar kíkti Guðni á skrifstofuna til mín eins og hann gerir oft og sagði “jæja nú finnst mér þetta komið gott hjá mér”.  Guðni fæddist árið 1946 og nú var komið að tímamótum hjá honum.  Hann var að tilkynna mér að hann væri hættur vegna aldurs.  Það var sem tíminn stoppaði smá stund og ég horfði á Guðna sitjandi í stólnum á móti mér og á örskotsstundu rann í gegnum hugann minn stórkostlegur ferill hans og ég fann í senn fyrir mikilli auðmýkt og virðingu.

Leikmaðurinn Guðni Kjartansson var hetja og fyrirmynd fyrir alla íslenska leikmenn.  Guðni varð margfaldur Íslandsmeistari með Keflavík.  Hann lék hvern einasta landsleik Íslands frá 1967-1973 og var kjölfesta landsliðsins.  Fjölmarga landsleiki var hann fyrirliði.  Besti leikmaðurinn sem hann spilaði gegn var Johan Cruyff.  Guðni spilaði líka í 14-2 tapinu gegn Danmörku.  Guðni spilaði gegn Real Madrid og á ennþá treyjuna.  Guðni var frábær leikmaður og ávann sér mikla virðingu bæði samherja og mótherja og var vel við hæfi að hann var fyrsti knattspyrnumaðurinn sem var valinn Íþróttamaður ársins en það er mesti heiður sem íslenskur íþróttamaður getur fengið. Ferill Guðna sem leikmanns styttist vegna erfiðra meiðsla og þá fór hann út í þjálfun.

Menn sáu fljótt að Guðni var góður þjálfari.  Hann leit á þjálfunarstarfið sem köllun og kennslu og var langt á undan sinni samtíð í þjálfun.  Árið 1977 eftir að hann hafði þjálfað Keflavík um tíma fór hann að starfa hjá KSÍ við að halda stutt þjálfaranámskeið og að aðstoða þáverandi landsliðsþjálfara. Það markaði upphafið að löngum og glæstum þjálfunarferli Guðna með landslið KSÍ.  Guðni hefur starfað nánast sleitulaust öll árin síðan við þjálfun landsliða KSÍ, hann hefur þjálfað A, U-21 og U-19 ára landslið Íslands með frábærum árangri ásamt því að vera ítrekað aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla.  Ég fékk að njóta starfskrafta Guðna svo síðustu árin þar sem hann var aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna 2006-2013.  Enginn þjálfari hefur stýrt landsliðunum í fleiri leikjum en þeir eru sennilega orðnir vel fleiri en 300 talsins.  Árangur Guðna með A-landslið karla er einn sá besti sem hefur náðst.  Árangur Guðna sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna er sá besti sem hefur nokkurn tímann náðst.

Guðni lagði alla tíð áherslu á að mennta sig, kláraði íþróttakennaranám og stundaði nám við Íþróttaháskólann í Köln.  Guðni gekk jafnframt í gegnum langan þjálfaraskóla hjá enska knattspyrnusambandinu.  Guðni var fræðslustjóri KSÍ áður en ég tók við af honum.  Guðni var jafnframt fyrsti þjálfarinn sem fékk UEFA B þjálfaragráðu frá Knattspyrnusambandi Íslands.  Guðni hefur setið í fræðslunefnd KSÍ í sjálfboðastarfi öll árin síðan ég man eftir mér.  Áratugi hefur Guðni kennt á þjálfaranámskeiðum KSÍ og þar deilt þekkingu sinni með næstu kynslóðum íslenskra þjálfara.

Guðni hefur þjálfað alla fremstu knattspyrnumenn þjóðarinnar síðustu áratugina og þegar við höfum verið saman og hitt þessa fyrrum knattspyrnuhetjur þjóðarinnar á förnum vegi hef ég alltaf séð skína í gegn djúpstæða virðingu og væntumþykju í augum hvers einasta þeirra. Ég hef aldrei heyrt Guðna tala illa um nokkurn mann og aldrei heyrt neinn tala illa um hann.  Ég þekki ekki marga sem eru svoleiðis. Guðni var maðurinn sem þjálfaði mig á fyrstu æfingunni minni með meistaraflokki KR.  Ég man hann skammaði mig fyrir að “dást að sendingunni minni” og hann stoppaði leikinn og spurði mig “hvað ert þú að gera?”.  Þetta hafði aldrei neinn þjálfari gert við mig.  Guðni fékk mig til að hugsa sem leikmaður og líka sem þjálfari.

Guðni var maðurinn sem kenndi mér að þjálfa.  Hann stóð alltaf 100% við bakið á mér og veitti mér innblástur og stuðning í landsliðsþjálfarastarfinu.  Traustari mann get ég ekki fundið og mun sennilega aldrei finna. Hans hjálp var mér algjörlega ómetanleg og hann á afskaplega stóran og oft á tíðum vanmetinn þátt í árangri kvennalandsliðsins.  Það mun enginn skilja það til fullnustu hvað hann hefur gefið kvennalandsliðinu nema ég. En þannig er hann, hann hefur aldrei sóst eftir viðurkenningu á sínum störfum.  Hann var kennari og köllun hans var að kenna fótbolta.

Þjálfarinn sem kvaddi þjálfarastarfið í stólnum á skrifstofunni minni í sumar skrifaði knattspyrnusögu Íslands.  Auðmýkt og virðing.  Orð eru fátækleg.  Hvað gat ég sagt?

Ef ég næ að áorka aðeins litlum hluta af því sem þú áorkaðir sem þjálfari og manneskja Guðni þá verð ég stoltur.

Takk fyrir allt Guðni.

Þú ert fyrirmynd mín í þjálfun.

Þinn vinur

Siggi Raggi

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. 3 Comments

Námskeiðið mitt…

Að skapa öfluga liðsheild

Hvaða aðferðum er sniðugt að beita til að búa til öfluga liðsheild? Hver eru einkenni góðrar liðsheildar og hvað ber að varast þegar liðið er mótað? Hvað einkennir lið sem ná árangri og hvernig getum við aukið líkurnar á að ná árangri með liðið okkar?

Hvort sem um fyrirtæki eða stofnun er að að ræða eða íþróttalið þá eru grundvallarlögmálin þau sömu þegar kemur að mótun liðsheildar. Á námskeiðinu er m.a. farið yfir hvernig má yfirfæra hugmyndafræði íþróttaliða í mótun liðsheildar yfir til fyrirtækja og stofnana og þannig hugsa út fyrir rammann.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Hvað er mikilvægast að hafa í huga við mótun liðsheildar og hvað ber að varast?
• Markmiðssetning liðsins og draumar um að ná árangri.
• Mikilvægi þess að gera liðið þitt eftirsóknarvert.
• Hvernig er best að mótivera liðið þitt til árangurs?

Ávinningur þinn:

• Námskeiðið gefur þér hugmyndir og hjálp í því hvernig þú getur betur mótað „liðið“ þitt til að það nái betri árangri.
• Þú færð góða innsýn í þær aðferðir sem Sigurður Ragnar hefur beitt til að móta liðið sitt og þú getur nýtt á svipaðan hátt.
• Þú lærir af öðrum á námskeiðinu sem eru að fást við það sama þó þeir séu jafnvel að vinna í öðru starfsumhverfi.
• Námskeiðið er tækifæri til að mynda tengslanet og stuðning sem getur nýst þér að námskeiðinu loknu.

Fyrir hverja:

Námskeiðið hentar hvort sem er stjórnendum, millistjórnendum, mannauðsstjórum, þjálfurum eða öðrum sem eru að fást við að búa til liðheild eða vilja fræðast meira um efnið.

Kennari(ar):

Sigurður Ragnar er þekktur sem landsliðsþjálfari A-landsliðs kvenna í knattspyrnu og hefur búið þar til öfluga liðsheild sem hefur náð frábærum árangri. Siggi Raggi starfar jafnframt sem fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands og er eftirsóttur fyrirlesari hjá fyrirtækjum og íþróttafélögum. Hann hefur lokið við UEFA Pro þjálfaragráðu í knattspyrnu og hefur m.a. starfað sem stundakennari í íþróttasálfræði við Háskóla Íslands. Hann er eini knattspyrnuþjálfarinn sem hefur komið A-landsliði Íslands í lokakeppni stórmóts og nú síðast í 8-liða úrslit Evrópukeppni A-landsliða kvenna.

Skráningarfrestur :

24. september 2013

Kennsla / umsjón:

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, íþróttafræðingur, M.Sc. í íþróttasálfræði

Hvenær:

Þri. 1. okt. kl. 16:00-19:30

Hvar:

Endurmenntun, Dunhaga 7.

Verð:

16.900 kr.

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Áfram Ísland!

Í dag réði KSÍ nýjan A-landsliðsþjálfara kvenna Frey Alexandersson.  Það var svolítið skrýtin tilfinning fyrir mig því ég hef sinnt starfi landsliðsþjálfara í  6 og hálft ár.  Það fékk mig til að hugsa tilbaka til þess tíma er ég byrjaði sem landsliðsþjálfari.  Þá var reynsluboltinn Guðni Kjartansson ráðinn aðstoðarþjálfarinn minn.  Ég fór á fyrsta blaðamannafundinn minn og man að fyrsta spurningin sem ég fékk var: “Var KSÍ ekki að ráða vitlausan landsliðsþjálfara, hefðu þeir ekki átt að ráða Guðna frekar?”. Að sama skapi gerði einn fjölmiðill skoðanakönnun á meðal leikmanna landsliðsins hvort þær væru ekki ósáttar við að reynslulaus þjálfari var ráðinn með landsliðið.  Það voru þær reyndar ekki svo takk fyrir að hafa gefið mér tækifæri stelpur!  Þjálfari í efstu deild kvenna hringdi í mig og tilkynnti mér hreint út að hann væri mjög ósáttur við að ég var ráðinn (ég var reyndar mjög sáttur við það því það mótiveraði mig í starfinu).  Um daginn faðmaði mig sami þjálfari og þakkaði mér fyrir frábært starf sem landsliðsþjálfari.  Það var hrós. Ég var stoltur af því.

Á fyrstu einstaklingsfundunum mínum tilkynntu þrír lykilleikmenn að þær væru að hugsa um að hætta í landsliðinu.  Á fyrsta liðsfundinum hélt ég klukkutíma pepp ræðu um mikilvægi þess að við þyrftum að leggja á okkur meira en nokkru sinni fyrr því við ætluðum að komast í lokakeppni EM og verða fyrsta liðið til þess í sögunni.  Strax eftir fundinn kom einn reynslumesti leikmaður landsliðsins til mín og sagði “Flott ræða Siggi Raggi, en má ég fá frí á landsliðsæfingunni á morgun því ég þarf að ná í kærastann minn út á flugvöll?”

En svona var þetta þá.

Í dag á Ísland frábært landslið.  Þær hafa farið í tvær lokakeppnir og eru nýbúnar að fara í 8-liða úrslit EM.  Þær hafa margbætt áhorfendametið nú síðast gegn Úkraínu voru 6.700 manns sem komu á Laugardalsvöll að sjá liðið spila. Núna eigum við 15 atvinnumenn erlendis  í stað þriggja leikmanna sem spiluðu erlendis þegar ég tók við.  Landsliðið okkar er 15. besta landslið heims og það 8. besta í Evrópu og aðeins einu sæti frá því að vera í 1. styrkleikaflokki.  Ísland hefur aldrei verið hærra skrifað.  Áhugi fjölmiðla og almennings á liðinu hefur margfaldast og margir góðir sigrar hafa unnist.  Liðið fór í úrslitaleik á sterkasta æfingamóti heims Algarve Cup árið 2011 eftir að hafa unnið Svíþjóð, Danmörku og Kína.  Heimsmeistarar Japan lentu í 3.sæti – litla Ísland fékk silfur.  Aðeins einn leikmaður sem fór í lokakeppni EM er hætt í fótbolta og gríðarlega efnilegir leikmenn eru að koma upp, leikmenn sem hafa komist í 4-liða úrslit EM í U-17 ára landsliðinu okkar.  Ísland er núna í riðli með Danmörku, Sviss, Serbíu, Ísrael og Möltu um að komast á HM 2015 í Kanada.  Það er eitt af fáum markmiðum sem A-landslið kvenna á eftir að ná og ég vona innilega að það náist.  Evrópa mun eiga 8 sæti í lokakeppni HM svo möguleikinn er stærri en nokkru sinni.

Mig langar að koma á framfæri innilegu þakklæti til allra sem ég hef starfað með hvort sem þið eruð leikmenn, samstarfsfólk, þjálfarar félagsliða, foreldrar leikmanna, þjálfarar yngri landsliða, stuðningsfólk landsliðsins, fjölmiðlar, stjórn KSÍ og hreinlega þakklæti til íslensku þjóðarinnar.  Það var heiður og forréttindi að fá að starfa með ykkur í þessu frábæra starfi.  Nú tekur við nýr kafli í lífinu hjá mér og ég er sem betur fer ekki lengur reynslulaus þjálfari.  Í haust vonast ég svo til að byrja að hjálpa öðrum að ná árangri.

Í framtíðinni vona ég að ég sjái A-landslið kvenna spila í lokakeppni  HM.  Ég vona að ég mæti á Laugardalsvöllinn einn daginn á kvennalandsleik og það verði uppselt.  Ég vona að ég sjái kvennalandsliðið einhvern tímann ná í verðlaunapening á stórmóti. Ég vona að Freyr Alexandersson taki við þar sem ég hætti og komi liðinu lengra en nokkru sinni fyrr.  Nú ber okkur öllum að hvetja nýja landsliðsþjálfarann og landslið þjóðarinnar til sigurs í landsleiknum gegn Sviss á Laugardalsvelli 26. september.  Áfram Ísland!

Til hamingju með starfið Freyr.

Ísland á HM!

Takk fyrir mig.

Siggi Raggi

 

 

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. 2 Comments

Má ég ekki taka aukaspyrnurnar?

Þegar ég held fyrirlestra hef ég oft tekið dæmi um Gylfa Sigurðsson, hvernig hann nálgast íþróttina sína og aukaspyrnurnar hans sem hann hefur æft meira en flestir aðrir.  Hérna er brot úr fyrirlestri hjá mér um Gylfa og aukaspyrnurnar hans.  Gylfi skoraði það sem margir myndu kalla ótrúlegt mark úr aukaspyrnu gegn Slóveníu í gær með A-landsliðinu en Gylfi hefur skorað mörg mörk úr aukaspyrnum því hann hefur æft sig í því meira heldur en aðrir. Það er þó ekki nóg að hafa bara færnina, það þarf aðeins meira til…

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments