Oct 12
9
Í dag var mjög eftirminnilegur dagur hjá mér í vinnunni en ég vinn sem fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands. Það sem var sérstakt var að ég hélt fyrirlestur fyrir valdamesta mann í heiminum í knattspyrnu, forseta FIFA (Alþjóða knattspyrnusambandsins) Joseph Blatter sem er staddur í heimsókn hér á landi á vegum KSÍ.
Mitt hlutverk var að kynna fyrir Blatter íslenska knattspyrnu. Það er efni sem stendur nærri hjarta mínu og ég hef sterkar skoðanir á enda hef ég eytt drjúgum hluta af lífi mínu í að stuðla að uppbyggingu knattspyrnunnar hér ásamt þúsundum íslendinga sem elska fótbolta. Blatter var mjög hrifinn af fyrirlestrinum og óskaði eftir að fá afrit fyrir FIFA. Blatter hrósaði okkur svo fyrir þann árangur sem hefur náðst hér á landi í þjálfun ungra leikmanna, árangri landsliðanna og uppbyggingu þjálfaramenntunar og knattspyrnumannvirkja en síðustu 10 ár hafa verið sannkölluð bylting á öllum þessum sviðum.
Blatter spurði mig svo m.a. hvar ég hefði lært og um minn bakgrunn. Ég sagði honum það og svo sagði hann “hérna ertu svo búinn að vinna sem fræðslustjóri KSÍ í 10 ár”. Ég sagði við hann “já en ég lít ekki á það sem vinnu því ég er að gera það sem ég elska að gera. Þetta er miklu fremur ástríða. Þegar maður hefur ástríðu fyrir því sem maður er að gera verður þetta nefnilega ekki eins og vinna heldur forréttindi eða köllun við að starfa við það sem maður elskar að gera”. Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum morgni og hef gert það frá fyrsta degi sagði ég. Ástríða hjálpar manni að ná árangri í starfi.
Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir KSÍ að forseti FIFA fái jákvæða og góða kynningu af íslenskri knattspyrnu og eftir daginn fannst mér ég hafa gert mitt til að svo mætti verða og því hafa unnið smá afrek.
En afrekin í lífinu eru margvísleg og ánægjulegasti partur dagsins hjá mér var í kvöld þegar ég fór út á sparkvöll með 7 ára dóttur minni og vinkonum hennar að leika okkur í fótbolta. Ég tapaði að sjálfsögðu naumlega 10-2! Fótbolti er stór partur af lífi mínu en það verður alltaf stærsta afrekið mitt í lífinu að hafa eignast dóttur mína og um leið mín mesta blessun í lífinu. Það er afrek sem ég get aldrei nokkurn tímann toppað.
Siggi Raggi
Oct 12
7
Ég hélt fyrirlestur fyrir stjórnendur Securitas um helgina. Fyrirlesturinn hét: “Hvað þarf til að ná árangri? – Hugarfar sigurvegarans.” Hópurinn var hress og skemmtilegur og það er alltaf gaman að tala við svoleiðis hópa. Ef þú hefur áhuga á að fá slíkan fyrirlestur fyrir þinn vinnustað, hóp, félag, skóla eða fyrirtæki, vertu þá endilega í sambandi!
Það má sjá meira um fyrirlestrana hér að ofan, umsagnir og fleira.
Heyri frá þér!
Siggi Raggi
siggiraggi73@gmail.com
Oct 12
6
Ég fæ oft spurninguna hér að ofan. Spurningunni svara ég oftast svona og svarið má eflaust yfirfæra á margt annað en fótbolta svo kannski gagnast svarið þér.
Til að komast í landsliðið þarftu að hafa einhvern afgerandi styrkleika. Hjá sumum er það tækni, hjá öðrum getur það verið hraði. Hjá sóknarmanni getur það verið að skora mörk. Allir leikmenn hafa misjafna eiginleika og engir tveir eru nákvæmlega eins. Hafðu alltaf í huga hverjir styrkleikar þínir eru og reyndu alltaf að byggja á þeim á æfingum og í leikjum. Gerðu það sem þú ert afgerandi góður í aftur og aftur. Byggðu leikinn þinn upp á þínum styrkleikum. Styrkleikar skila þér í landsliðsklassa.
Hverjir eru styrkleikarnir þínir? Hugsaðu málið, skráðu niður 5 bestu styrkleikana þína og gefðu þér einkunn fyrir þá á bilinu 0-10.
Mundu að ef þú ætlar þér í landsliðið þarftu auðvitað líka að bæta úr veikleikum þínum svo þeir hafi ekki hamlandi áhrif á frammistöðu þína en styrkeikarnir skila þér í fremstu röð. Gangi þér vel.
Siggi Raggi
Það fyrsta sem maður þarf að gera ef maður vill ná árangri er að eiga sér draum. Þú þarft að vita hvert þú vilt stefna. Annars getur þú ekki búið þér til plan til að komast þangað sem þú vilt komast. Alltof margir fara á æfingu eða í skólann eða í vinnuna og hugsa ekkert lengra en það. “Já ég er bara að æfa fótbolta og það er fótboltaæfing og það er æfing í kvöld” og horfa svo ekkert lengra en það. Það er ekki vænlegt til árangurs. Áður en þú leggst á koddann í kvöld, skrifaðu þá niður það sem þig dreymir um að áorka í lífinu. Hafðu blaðið þar sem þú sérð það oft, hengdu það á ísskápinn, hafðu það sem bókamerki eða hengdu það upp á skápinn þinn í búningsklefanum. Þá sérðu drauminn þinn ljóslifandi á hverjum degi, það mun hjálpa þér að ná því takmarki sem þig dreymir um.
Ég geri persónulega greinarmun á því að eiga sér markmið og að eiga sér draum. Að eiga sér draum er eitthvað æðra og meira, einhver knýjandi þrá innra með okkur sem hjálpar okkur frá degi til dags að ná árangri. Rannsóknir á markmiðasetningu segja að markmið eigi að vera:
Sérhæfð (nákvæm), mælanleg, aktív (krefjast einhvers aukalega af þér), raunhæf (en krefjandi) og tímasett. Ef markmiðin þín eru allt þetta eru þau SMART. Þetta er því fínn tékklisti fyrir góða markmiðssetningu.
Þegar ég fór í gegnum háskólanámið mitt í íþróttasálfræði hélt ég að svör við öllu væri að finna í rannsóknum. Með árunum hef ég hins vegar komist að því að það er langt því frá að vera rétt. Því ef þú skoðar markmiðssetningu hjá fólki sem skarar fram úr sérðu oft á tíðum miklu háleitari markmið heldur en þau sem eru raunhæf en krefjandi.
Eitt flottasta markmið sem ég hef séð setti Michael Phelps sundmaður sér þegar hann var 16 ára gamall. Ég hef áður sagt að færa má rök fyrir því að Michael Phelps sé besti íþróttamaður allra tíma. Engum íþróttamanni hefur tekist að vinna fleiri Ólympíugull en honum. Þegar Michael Phelps var ungur og efnilegur sundmaður hitti hann fyrsta umboðsmanninn sinn. Umboðsmaðurinn spurði hann hvað hann dreymdi um í framtíðinni og hvaða markmið hann hefði sett sér. Munið að Michael Phelps var aðeins 16 ára gamall en svarið hans var eftirfarandi:
“Ég ætla að breyta íþróttinni minni”.
Hvað þekkir þú marga sem eru 16 ára sem hugsa svona? Af hverju hugsa ekki fleiri svona?
Nú er spurningin mín til þín hvort sem þú ert íþróttamaður, starfsmaður, námsmaður eða hvað: Hver er draumurinn þinn? Ef þú ert þjálfari, stjórnandi, kennari, foreldri eða einhver annar sem vinnur með ungu fólki, getur þú þá kennt þessu unga fólki að hafa svipað hugarfar og drauma og Michael Phelps? Við getum breytt heiminum. Getur þú mótað börnin þín og æsku landsins í að þora að fara ótroðnar slóðir og brjótast í gegnum múra sem við höfum sjálf ekki komist í gegnum? Það er áskorun til þín. Þjálfarar eru endalaust að kenna rétta tækni og líkamlega færni, það er líka mikilvægt en ég spyr getum við líka kennt þeim sem við erum að þjálfa, kenna og hafa áhrif á – framúrskarandi hugarfarslega þætti? Þeir eru nefnilega ofboðslega vanræktir en mikilvægir til að ná árangri í því sem við erum að fást við.
Minn draumur er að hjálpa kvennalandsliðinu að komast í lokakeppni Evrópumóts kvennalandsliða. Hver er þinn?
http://www.youtube.com/watch?v=_TLITn4IMYU&feature=relmfu
Skilaboð til þín frá Michael Phelps.
Ella Henderson, 16 ára að elta drauminn sinn og á góðri leið með að breyta “íþróttinni” sinni.
Siggi Raggi
Oct 12
3
“Ekkert er ómögulegt” eru einkunnarorð stelpnanna okkar í A-landsliði kvenna í knattspyrnu. Þær hafa líka sýnt það og sannað oft á undanförnum árum. Það hefur verið mikill heiður og ánægja að fá að taka þátt í því með þeim. En nú er svo komið að kvennalandsliðið er að fara í gríðarlega mikilvæga umspilsleiki fyrir lokakeppni Evrópumóts kvennalandsliða sem fer fram í Svíþjóð á næsta ári. Það hefur verið draumur okkar síðustu 2 árin að taka þátt í því. Öll vinnan sem við höfum lagt á okkur síðustu 2 árin verður lögð á vogarskálarnar í þessum tveimur leikjum sem eru framundan.
Í aðdraganda landsleikja horfum við alltaf á mótiverandi vídeó saman. Það er orðin ómissandi hluti af rútínunni okkar. Mig langar til að deila með ykkur vídeói sem ég setti saman fyrir stelpurnar eftir að við tryggðum okkur sæti í lokakeppni EM 2009 því nú er að koma að öðru svoleiðis mómenti. Ef þú hefur einhvern tímann mætt á fyrirlestur hjá mér eða ert núna að kíkja á þessa síðu langar mig til að biðja þig um að gera mér greiða: Viltu mæta á Ísland-Úkraína 25. október og veita stelpunum stuðning? Þær eiga það svo ótrúlega mikið skilið.
Ísland mætir Úkraínu á Laugardalsvelli 25. október klukkan 18.30. Sjáumst á vellinum og njóttu þessa myndbands því í því felst lærdómurinn að ekkert er ómögulegt!
Lokakeppnissyrpa from Siggi Eyjolfsson on Vimeo.