Engar afsakanir!

Þegar ég var á aldrinum 18-20 ára spilaði ég með liði KR í efstu deild í knattspyrnu og vann hjá BogL við að afgreiða varahluti í Lödur (já ég veit, ekki skemmtilegt!).   Íris konan mín spilaði fótbolta með Val og vann á Íþrótta- og leikjanámskeiði Vals sem hét Sumarbúðir í borg.  Við áttum 1 bíl saman svo ég sótti hana yfirleitt eftir æfingu á sumrin niður í Valsheimili.

Eitt kvöldið þegar við vorum á heimleið sagði Íris við mig: “Af hverju æfir þú ekki tvisvar á dag eins og margir sem ég er að vinna með í sumarbúðunum?”.  Ég svaraði: “Ég er að vinna frá 9.00-18.00 fer svo beint á æfingu og svo heim að borða og sofa, hvenær á ég að ná annarri æfingu”?  Íris sagði þá : “Þú getur æft í hádeginu eins og þeir sem ég er að vinna með”.  Ég svaraði: “Nei þá verð ég bara þreyttur og ég þarf tíma til að fara að borða og svo fæ ég bara hálftíma í matarhlé”.

Ég fann semsagt allar afsakanir í bókinni til að fara ekki að æfa tvisvar á dag.

Íris sagði mér líka frá því að þeir sem hún var að vinna með æfðu sig aukalega í hádegishlénu og voru jafnvel  í þessari vinnu til að geta æft meira eða leikið sér með bolta á daginn.  Ég lét mér fátt um finnast.

Af hverju er ég að segja þessa sögu hér?  Jú það er athyglisvert að líta tilbaka og skoða þá samstarfsmenn sem Íris var að vinna með og voru svo framsýnir og duglegir og metnaðarfullir að æfa tvisvar á dag og leika sér með boltann sjálfir aukalega til að ná metnaðarfullu markmiðunum sínum. Þegar þeir unnu með Írisi voru þeir ekkert mjög þekktir en nú eru komin mörg ár síðan svo við skulum sjá hvað varð úr þeim og ferlinum þeirra.  Kannski kannist þið við þá, hér koma nöfnin þeirra:

Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður (smelltu á nafnið til að sjá ferilinn hans)

Ívar Ingimarsson knattspyrnumaður (smelltu á nafnið til að sjá ferilinn hans)

Snorri Steinn Guðjónsson handboltamaður (smelltu á nafnið til að sjá ferilinn hans)

Get ekki sagt annað en að það hafi virkað fyrir þá að æfa tvisvar á dag og leika sér sjálfir aukalega með boltann!

Það er þó langt í frá eina ástæðan fyrir því að þeir náðu langt í sinni íþrótt, en meira um það síðar.

Ef ég á að gefa þér bara eitt gott ráð til að skara fram úr í íþróttum þá myndi það vera æfðu þig aukalega

og engar afsakanir!


Siggi Raggi

 

 

 

2 Responses to "Engar afsakanir!"

  • Þorleifur Ottó says:
  • Siggi Raggi says:
Leave a Comment