Oct 12
5
Ég ætla að breyta íþróttinni minni
Það fyrsta sem maður þarf að gera ef maður vill ná árangri er að eiga sér draum. Þú þarft að vita hvert þú vilt stefna. Annars getur þú ekki búið þér til plan til að komast þangað sem þú vilt komast. Alltof margir fara á æfingu eða í skólann eða í vinnuna og hugsa ekkert lengra en það. “Já ég er bara að æfa fótbolta og það er fótboltaæfing og það er æfing í kvöld” og horfa svo ekkert lengra en það. Það er ekki vænlegt til árangurs. Áður en þú leggst á koddann í kvöld, skrifaðu þá niður það sem þig dreymir um að áorka í lífinu. Hafðu blaðið þar sem þú sérð það oft, hengdu það á ísskápinn, hafðu það sem bókamerki eða hengdu það upp á skápinn þinn í búningsklefanum. Þá sérðu drauminn þinn ljóslifandi á hverjum degi, það mun hjálpa þér að ná því takmarki sem þig dreymir um.
Ég geri persónulega greinarmun á því að eiga sér markmið og að eiga sér draum. Að eiga sér draum er eitthvað æðra og meira, einhver knýjandi þrá innra með okkur sem hjálpar okkur frá degi til dags að ná árangri. Rannsóknir á markmiðasetningu segja að markmið eigi að vera:
Sérhæfð (nákvæm), mælanleg, aktív (krefjast einhvers aukalega af þér), raunhæf (en krefjandi) og tímasett. Ef markmiðin þín eru allt þetta eru þau SMART. Þetta er því fínn tékklisti fyrir góða markmiðssetningu.
Þegar ég fór í gegnum háskólanámið mitt í íþróttasálfræði hélt ég að svör við öllu væri að finna í rannsóknum. Með árunum hef ég hins vegar komist að því að það er langt því frá að vera rétt. Því ef þú skoðar markmiðssetningu hjá fólki sem skarar fram úr sérðu oft á tíðum miklu háleitari markmið heldur en þau sem eru raunhæf en krefjandi.
Eitt flottasta markmið sem ég hef séð setti Michael Phelps sundmaður sér þegar hann var 16 ára gamall. Ég hef áður sagt að færa má rök fyrir því að Michael Phelps sé besti íþróttamaður allra tíma. Engum íþróttamanni hefur tekist að vinna fleiri Ólympíugull en honum. Þegar Michael Phelps var ungur og efnilegur sundmaður hitti hann fyrsta umboðsmanninn sinn. Umboðsmaðurinn spurði hann hvað hann dreymdi um í framtíðinni og hvaða markmið hann hefði sett sér. Munið að Michael Phelps var aðeins 16 ára gamall en svarið hans var eftirfarandi:
“Ég ætla að breyta íþróttinni minni”.
Hvað þekkir þú marga sem eru 16 ára sem hugsa svona? Af hverju hugsa ekki fleiri svona?
Nú er spurningin mín til þín hvort sem þú ert íþróttamaður, starfsmaður, námsmaður eða hvað: Hver er draumurinn þinn? Ef þú ert þjálfari, stjórnandi, kennari, foreldri eða einhver annar sem vinnur með ungu fólki, getur þú þá kennt þessu unga fólki að hafa svipað hugarfar og drauma og Michael Phelps? Við getum breytt heiminum. Getur þú mótað börnin þín og æsku landsins í að þora að fara ótroðnar slóðir og brjótast í gegnum múra sem við höfum sjálf ekki komist í gegnum? Það er áskorun til þín. Þjálfarar eru endalaust að kenna rétta tækni og líkamlega færni, það er líka mikilvægt en ég spyr getum við líka kennt þeim sem við erum að þjálfa, kenna og hafa áhrif á – framúrskarandi hugarfarslega þætti? Þeir eru nefnilega ofboðslega vanræktir en mikilvægir til að ná árangri í því sem við erum að fást við.
Minn draumur er að hjálpa kvennalandsliðinu að komast í lokakeppni Evrópumóts kvennalandsliða. Hver er þinn?
http://www.youtube.com/watch?v=_TLITn4IMYU&feature=relmfu
Skilaboð til þín frá Michael Phelps.
Ella Henderson, 16 ára að elta drauminn sinn og á góðri leið með að breyta “íþróttinni” sinni.
Siggi Raggi