Áfram Ísland!

Í dag réði KSÍ nýjan A-landsliðsþjálfara kvenna Frey Alexandersson.  Það var svolítið skrýtin tilfinning fyrir mig því ég hef sinnt starfi landsliðsþjálfara í  6 og hálft ár.  Það fékk mig til að hugsa tilbaka til þess tíma er ég byrjaði sem landsliðsþjálfari.  Þá var reynsluboltinn Guðni Kjartansson ráðinn aðstoðarþjálfarinn minn.  Ég fór á fyrsta blaðamannafundinn minn og man að fyrsta spurningin sem ég fékk var: “Var KSÍ ekki að ráða vitlausan landsliðsþjálfara, hefðu þeir ekki átt að ráða Guðna frekar?”. Að sama skapi gerði einn fjölmiðill skoðanakönnun á meðal leikmanna landsliðsins hvort þær væru ekki ósáttar við að reynslulaus þjálfari var ráðinn með landsliðið.  Það voru þær reyndar ekki svo takk fyrir að hafa gefið mér tækifæri stelpur!  Þjálfari í efstu deild kvenna hringdi í mig og tilkynnti mér hreint út að hann væri mjög ósáttur við að ég var ráðinn (ég var reyndar mjög sáttur við það því það mótiveraði mig í starfinu).  Um daginn faðmaði mig sami þjálfari og þakkaði mér fyrir frábært starf sem landsliðsþjálfari.  Það var hrós. Ég var stoltur af því.

Á fyrstu einstaklingsfundunum mínum tilkynntu þrír lykilleikmenn að þær væru að hugsa um að hætta í landsliðinu.  Á fyrsta liðsfundinum hélt ég klukkutíma pepp ræðu um mikilvægi þess að við þyrftum að leggja á okkur meira en nokkru sinni fyrr því við ætluðum að komast í lokakeppni EM og verða fyrsta liðið til þess í sögunni.  Strax eftir fundinn kom einn reynslumesti leikmaður landsliðsins til mín og sagði “Flott ræða Siggi Raggi, en má ég fá frí á landsliðsæfingunni á morgun því ég þarf að ná í kærastann minn út á flugvöll?”

En svona var þetta þá.

Í dag á Ísland frábært landslið.  Þær hafa farið í tvær lokakeppnir og eru nýbúnar að fara í 8-liða úrslit EM.  Þær hafa margbætt áhorfendametið nú síðast gegn Úkraínu voru 6.700 manns sem komu á Laugardalsvöll að sjá liðið spila. Núna eigum við 15 atvinnumenn erlendis  í stað þriggja leikmanna sem spiluðu erlendis þegar ég tók við.  Landsliðið okkar er 15. besta landslið heims og það 8. besta í Evrópu og aðeins einu sæti frá því að vera í 1. styrkleikaflokki.  Ísland hefur aldrei verið hærra skrifað.  Áhugi fjölmiðla og almennings á liðinu hefur margfaldast og margir góðir sigrar hafa unnist.  Liðið fór í úrslitaleik á sterkasta æfingamóti heims Algarve Cup árið 2011 eftir að hafa unnið Svíþjóð, Danmörku og Kína.  Heimsmeistarar Japan lentu í 3.sæti – litla Ísland fékk silfur.  Aðeins einn leikmaður sem fór í lokakeppni EM er hætt í fótbolta og gríðarlega efnilegir leikmenn eru að koma upp, leikmenn sem hafa komist í 4-liða úrslit EM í U-17 ára landsliðinu okkar.  Ísland er núna í riðli með Danmörku, Sviss, Serbíu, Ísrael og Möltu um að komast á HM 2015 í Kanada.  Það er eitt af fáum markmiðum sem A-landslið kvenna á eftir að ná og ég vona innilega að það náist.  Evrópa mun eiga 8 sæti í lokakeppni HM svo möguleikinn er stærri en nokkru sinni.

Mig langar að koma á framfæri innilegu þakklæti til allra sem ég hef starfað með hvort sem þið eruð leikmenn, samstarfsfólk, þjálfarar félagsliða, foreldrar leikmanna, þjálfarar yngri landsliða, stuðningsfólk landsliðsins, fjölmiðlar, stjórn KSÍ og hreinlega þakklæti til íslensku þjóðarinnar.  Það var heiður og forréttindi að fá að starfa með ykkur í þessu frábæra starfi.  Nú tekur við nýr kafli í lífinu hjá mér og ég er sem betur fer ekki lengur reynslulaus þjálfari.  Í haust vonast ég svo til að byrja að hjálpa öðrum að ná árangri.

Í framtíðinni vona ég að ég sjái A-landslið kvenna spila í lokakeppni  HM.  Ég vona að ég mæti á Laugardalsvöllinn einn daginn á kvennalandsleik og það verði uppselt.  Ég vona að ég sjái kvennalandsliðið einhvern tímann ná í verðlaunapening á stórmóti. Ég vona að Freyr Alexandersson taki við þar sem ég hætti og komi liðinu lengra en nokkru sinni fyrr.  Nú ber okkur öllum að hvetja nýja landsliðsþjálfarann og landslið þjóðarinnar til sigurs í landsleiknum gegn Sviss á Laugardalsvelli 26. september.  Áfram Ísland!

Til hamingju með starfið Freyr.

Ísland á HM!

Takk fyrir mig.

Siggi Raggi

 

 

 

2 Responses to "Áfram Ísland!"

  • Bjarni Hjartarson says:
  • Sigurður Þorsteinsson says:
Leave a Comment