Siggi Raggi.is

Vantar þinn hóp fyrirlestur eða vinnustofu? Viltu ná betri árangri í þinni vinnu eða íþrótt? Vantar þig ráðgjöf?

Áfram Ísland!

Í dag réði KSÍ nýjan A-landsliðsþjálfara kvenna Frey Alexandersson.  Það var svolítið skrýtin tilfinning fyrir mig því ég hef sinnt starfi landsliðsþjálfara í  6 og hálft ár.  Það fékk mig til að hugsa tilbaka til þess tíma er ég byrjaði sem landsliðsþjálfari.  Þá var reynsluboltinn Guðni Kjartansson ráðinn aðstoðarþjálfarinn minn.  Ég fór á fyrsta blaðamannafundinn minn og man að fyrsta spurningin sem ég fékk var: “Var KSÍ ekki að ráða vitlausan landsliðsþjálfara, hefðu þeir ekki átt að ráða Guðna frekar?”. Að sama skapi gerði einn fjölmiðill skoðanakönnun á meðal leikmanna landsliðsins hvort þær væru ekki ósáttar við að reynslulaus þjálfari var ráðinn með landsliðið.  Það voru þær reyndar ekki svo takk fyrir að hafa gefið mér tækifæri stelpur!  Þjálfari í efstu deild kvenna hringdi í mig og tilkynnti mér hreint út að hann væri mjög ósáttur við að ég var ráðinn (ég var reyndar mjög sáttur við það því það mótiveraði mig í starfinu).  Um daginn faðmaði mig sami þjálfari og þakkaði mér fyrir frábært starf sem landsliðsþjálfari.  Það var hrós. Ég var stoltur af því.

Á fyrstu einstaklingsfundunum mínum tilkynntu þrír lykilleikmenn að þær væru að hugsa um að hætta í landsliðinu.  Á fyrsta liðsfundinum hélt ég klukkutíma pepp ræðu um mikilvægi þess að við þyrftum að leggja á okkur meira en nokkru sinni fyrr því við ætluðum að komast í lokakeppni EM og verða fyrsta liðið til þess í sögunni.  Strax eftir fundinn kom einn reynslumesti leikmaður landsliðsins til mín og sagði “Flott ræða Siggi Raggi, en má ég fá frí á landsliðsæfingunni á morgun því ég þarf að ná í kærastann minn út á flugvöll?”

En svona var þetta þá.

Í dag á Ísland frábært landslið.  Þær hafa farið í tvær lokakeppnir og eru nýbúnar að fara í 8-liða úrslit EM.  Þær hafa margbætt áhorfendametið nú síðast gegn Úkraínu voru 6.700 manns sem komu á Laugardalsvöll að sjá liðið spila. Núna eigum við 15 atvinnumenn erlendis  í stað þriggja leikmanna sem spiluðu erlendis þegar ég tók við.  Landsliðið okkar er 15. besta landslið heims og það 8. besta í Evrópu og aðeins einu sæti frá því að vera í 1. styrkleikaflokki.  Ísland hefur aldrei verið hærra skrifað.  Áhugi fjölmiðla og almennings á liðinu hefur margfaldast og margir góðir sigrar hafa unnist.  Liðið fór í úrslitaleik á sterkasta æfingamóti heims Algarve Cup árið 2011 eftir að hafa unnið Svíþjóð, Danmörku og Kína.  Heimsmeistarar Japan lentu í 3.sæti – litla Ísland fékk silfur.  Aðeins einn leikmaður sem fór í lokakeppni EM er hætt í fótbolta og gríðarlega efnilegir leikmenn eru að koma upp, leikmenn sem hafa komist í 4-liða úrslit EM í U-17 ára landsliðinu okkar.  Ísland er núna í riðli með Danmörku, Sviss, Serbíu, Ísrael og Möltu um að komast á HM 2015 í Kanada.  Það er eitt af fáum markmiðum sem A-landslið kvenna á eftir að ná og ég vona innilega að það náist.  Evrópa mun eiga 8 sæti í lokakeppni HM svo möguleikinn er stærri en nokkru sinni.

Mig langar að koma á framfæri innilegu þakklæti til allra sem ég hef starfað með hvort sem þið eruð leikmenn, samstarfsfólk, þjálfarar félagsliða, foreldrar leikmanna, þjálfarar yngri landsliða, stuðningsfólk landsliðsins, fjölmiðlar, stjórn KSÍ og hreinlega þakklæti til íslensku þjóðarinnar.  Það var heiður og forréttindi að fá að starfa með ykkur í þessu frábæra starfi.  Nú tekur við nýr kafli í lífinu hjá mér og ég er sem betur fer ekki lengur reynslulaus þjálfari.  Í haust vonast ég svo til að byrja að hjálpa öðrum að ná árangri.

Í framtíðinni vona ég að ég sjái A-landslið kvenna spila í lokakeppni  HM.  Ég vona að ég mæti á Laugardalsvöllinn einn daginn á kvennalandsleik og það verði uppselt.  Ég vona að ég sjái kvennalandsliðið einhvern tímann ná í verðlaunapening á stórmóti. Ég vona að Freyr Alexandersson taki við þar sem ég hætti og komi liðinu lengra en nokkru sinni fyrr.  Nú ber okkur öllum að hvetja nýja landsliðsþjálfarann og landslið þjóðarinnar til sigurs í landsleiknum gegn Sviss á Laugardalsvelli 26. september.  Áfram Ísland!

Til hamingju með starfið Freyr.

Ísland á HM!

Takk fyrir mig.

Siggi Raggi

 

 

 

You can follow any responses to this entry through the RSS 2.0 feed.

You can leave a response, or trackback from your own site.

2 Responses to “Áfram Ísland!”

  1. Bjarni Hjartarson says:

    Sæll Sigurður.

    TAkk fyrir að hafa lyft íslenskri kvennaknattspyrnu upp á þann stall sem hún er í dag. VEit að það er ekki eins manns verk, Guðni starfsfólkið í kring og ekki síst stelpurnar sem hafa lagt líf sitt og sál í verkefnið. Freyr er verðskuldur arftaki af þínu kefli og hef fulla trú að hann lyfti okkar landsliði upp í hæstu hæðir. TAkk enn og aftur fyrir þitt frábæra starf og gangi þég vel í næstu verkefnum.

    Kveðja,
    Bjarni Hjartarson

  2. Sigurður Þorsteinsson says:

    Heill og sæll nafni.

    Minnist þess þegar ráðning þín var tilkynnt, hvað ég var undrandi á jákvæðan hátt. Reynslulaus þjálfari með sálfræðimenntun, og jú spilreynslu og fær þá reynsluboltann Guðna Kjarnanson með sér. Þetta var flott. Sjálfur hafði ég feningið tilboð í þrjú ár í röð á sínum tíma að taka við þáverandi Íslandsmeisturum, en ég einfaldlega treysti mér ekki í það dæmi, þá. Hafði sennilega ekki andlegan þroska eða styrk. Fannst stelpurnar fara með of mörg mál upp á tilfinningasviðið. Kannski var þetta rangt mat?

    Vegferðin hjá ykkur þessi rúmlega sex ár er ekki aðeins sigurganga fyrir kvennafótboltann, heldur hefur jákvæðnin smitast út í alla hrefyinguna. Þið hafið lyft kvennaknattspyrnunni upp á stall sem hann hefur aldrei komist nálægt áður. Fyrir það eigum við að vera þákklát og stollt.

    Áhrif þín eru líka inn á fræðslusviðið og þau eru frábær. Fagmennska.

    Það eru fáir menn, ef nokkrir, sem hafa breytt jafn miklu og þú á jafn skömmum tíma. Vil þakka þér fyrir og vona að íslensk knattspyrna fái að njóta krafta þinna í framtíðinni.

    Bestu kveðjur

    Sigurður Þorsteinsson

Leave a Reply

Posted on: Saturday, August 31st, 2013 at 00:08

Posted in: Uncategorized

Tags:

Search